Við erum nokkuð viss um að það hafi ekki verið ætlunin en í þessari grein BB er búið að taka saman á einum stað gott yfirlit yfir stjórnmálamenn sem hafa unnið fyrir sjókvíaeldisfyrirtækin samhliða þeim skyldum sem þeir hafa verið kosnir til af almenningi, eða farið beint úr þeim störfum til iðnaðarins.

Við hvetjum ykkur kæru lesendur til að lesa greinina og dæma um það sjálf hvort þetta sé eðlilegt.

Í greinnin er fjallað um gagnrýni Jóns Kaldal á samkrull stjórnmála og sjókvíaeldisiðnaðarins:

„Nýjustu skrifin sem Jón Kaldal ber ábyrgð á eru beinar ásakanir um að sjókvíaeldisfyrirtækin kaupi til sín stjórnmálamenn og starfsfólk ráðuneyta. Fyrir nokkrum dögum voru önnur skrif til þess að varpa „ljósi á hvernig norsku sjókvíaeldisfyrirtækin hafa sótt sér fúsa þjóna úr stjórnmálastétt Íslands.“ og ráðist að Daníel Jakobssyni sem var bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ á síðasta kjörtímabili. Á kjörtímabilinu réði hann sig til starfa hjá Arctic Fish. Því er haldið fullum fetum í skrifunum að fyrir vinnuna sé borgað með því að vinna á vettvangi bæjarstjórnar að hagsmunum fyrirtækisins.

Þetta er ekki nýtt af hálfu Jóns Kaldal. Hann hefur áður ráðist að trúverðugleika sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum sem hafa verið í vinnu hjá laxeldisfyrirtæki á sama tíma. Í viðtali á visir.is 14.2. fyrir ári síðan sagði hann að „Þessi iðnaður er búinn að vefa sig inn í stjórnmálalífið hér við land með mjög lævíslegum hætti. Formaður bæjarráðs á Ísafirði er starfsmaður sjókvíaeldisfyrirtækis, formaður bæjarráðs  í Bolungarvík er starfsmaður sjókvíaeldis og forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar,“  Á öðrum stað sagði hann að forystumenn í þremur sveitarfélögum væru starfsmenn fiskeldisfyrirtækja og bætti svo við fyrrverandi ráðherra og alþm Einar K Guðfinnssyni sem hefði „farið beint af Alþingi til samtaka fiskeldisfyrirtækja“ Jón sagðist ekki finna fyrir trausti í garð þeirra (Pressan, 18.2. 2022).“