Með um 33.000 tonn af lífmassa af eldislaxi í sjókvíum (einsog magnið er núna) er gjörsamlega allt á hliðinni vegna þessarar starfsemi.

Stjórnvöld gera ráð fyrir að framleiðslan geti rúmlega þrefaldast, farið í 106.500 tonn á ári. Það þýðir að eldislöxunum í netapokunum myndi fjölga úr um 20 milljónum í um 68 milljónir fiska.

Það er 1.133-faldur fjöldi íslenska villta laxastofnsins.

Þessi áform hljóta að vera úr sögunni.

Sjókvíaeldisfyrirtækin hafa sýnt að þau ráða ekki við núverandi fjölda í kvíunum, hvað þá mögulega margföldun af fiski.

Einu aðgerðirnar sem hindra útbreiðslu eldislax í ám er að hætta sjókvíaeldi í opnum netapokum.

Í umfjöllun RÚV kemur m.a. fram að stofnunin sé nú með til rannsóknar 58 laxa sem eru þegar í frystiklefum og 30 til viðbótar á leiðinni:

„Búið er að gera Landssambandi veiðifélaga vart við um fleiri laxa eða 106. Og ein á hefur bæst við til viðbótar þeim ám þar sem meintur strokulax hefur fundist. Það er Hrútafjarðará. Búið er að greina 34 laxa af 58 hjá Hafrannsóknastofnun og 27 þeirra eru eldislaxar og alla nema einn má rekja til götóttu sjókvíarinnar í Kvígindisdal í Patreksfirði sem uppgötvaðist 20. ágúst.

Eldislaxar geta verið vanskapaðir í útliti. Af tveimur eldislöxum sem skoðaðir voru á Hafrannsóknastofnun í dag var til dæmis bakuggi annars þeirra tættur en hinn var smár og ekki til mikils gagns. Skolturinn er líka aflagaður, sporðurinn líka og aðrir uggar.

Líffræðingarnir Leó Alexander Guðmundsson og Hlynur Bárðarson taka sýni úr löxunum svo hægt sé að greina erfðaefnið. Þá eru tekin sýni til að rannsaka síðar, eins og úr roði. Og auðvitað er eldislaxinn líka mældur.

… Fiskistofa sendi síðdegis tilmæli til Landssambands veiðifélaga um þau loki laxastigum til áramóta en villtum fiskum sleppt upp fyrir og að þau framlengi stangveiðitímabilið til 15. nóvember og aðeins verði leyft að veiða eldislaxa. Og þá eru lagðar til aðgerðir í samráði við Fiskistofu um að draga með netum þar sem grunur er um eldislax, leita að eldislöxum með ljósi í myrkri og veiða í háfa og að Fiskistofa fái norska sérfræðinga til að rekkafa eða snorkla ár og leita eldislaxa.

Fiskistofa beinir því til veiðifélaga að láta vita af öllum eldislöxum sem veiðast og senda þá kælda eða frysta til Hafrannsóknastofnunar.“