Við ætlum rétt að vona að meðferð lögreglustjórans á Vestfjörðum sé ekki lýsandi fyrir vinnubrögð annarra lögreglustjóraembætta á landinu.

Skv. frétt Vísis:

Ríkissaksóknara bárust 27 kærur vegna ákvörðunar lögreglustjórans á Vestfjörðum að fella niður rannsókn á slysasleppingum úr fiskeldisstöð Arctic Sea Farm.

Þetta kemur fram í svörum Ríkissaksóknara við fyrirspurn fréttastofu. Þar kemur jafnframt fram að kærurnar bárust bæði frá einstaklingum og lögpersónum, það er að segja stofnunum, félagasamtökum eða fyrirtækjum.

Saksóknari segist að öðru leyti ekki geta gefið upp hverjir kærðu ákvörðunina.

Málið varðar það þegar 3.500 laxar sluppu úr sjókví Arctic Sea Farm í Kvígindisdal í Patreksfirði í ágúst 2023.

Lögregla hóf rannsókn á málinu í kjölfar kæru Matvælastofnunar sem vísaði til laga um fiskeldi og sagði að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri Arctic Sea Farm gætu átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsisdóm.

Lögreglan á Vestfjörðum greindi frá því rétt fyrir jól að rannsókninni væri hætt.

Í lok desembermánaðar sagði Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga, að samtökin hygðust kæra ákvörðunina.

Gunnar fullyrti í samtali við fréttastofu að „vanhæfi lögreglustjórans á Vestfjörðum í þessu máli er algjört.“