Hér er stórfrétt. Útgefin rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi eru ekki lögum samkvæmt.

Því miður hafa vinnubrögðin við umgjörðina um þennan iðnað flest verið á þessa leið. Illa að verki staðið og flest á forsendum þessa skaðlega iðnaðar á kostnað náttúrunnar.

Við hjá IWF tökum undir orð Gunnars Arnar Petersen, framkvæmdastjóra Landssambands veiðifélaga, í frétt RÚV:

„Það sem okkur finnst kannski alvarlegast við þetta mál allt saman að þetta er enn eitt dæmið um óvönduð vinnubrögð stjórnvalda þar sem mál eru unnin mjög hratt og illa og í rauninni mjög sérstakt að lög sem hafa umhverfisvernd og sjálfbærni að markmiði, að það sé bara skautað framhjá þeim.“

Stóra spurningin er: hvað ætla stjórnvöld að gera núna? Síðast þegar leyfi fyrir sjókvíaeldi voru felld úr gildi var keyrð í gegnum Alþingi sérsmíðuð löggjöf þvert á Árósarsamninginn og fleiri alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur skrifað undir. Var sú afgreiðsla síðar úrskurðuð brotleg af Eftirlitsstofnun EFTA.

Baksaga málsins, skv. RÚV:

„Landssamband Veiðifélaga vill að rekstrarleyfi fiskeldis í sjó verði afturkölluð eða ógild eftir að Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að mat á lífrænum áhrifum sjókvíaeldis skuli háð ákvæðum laga um umhverfsimat.

Það var Landssamband Veiðifélaga (LV) sem óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar. Burðarþolsmat eru unnið af Hafrannsóknarstofnun, meðal annars til að meta óæskileg áhrif af eldisstarfsemi. Er þeim ætlað að meta hversu miklu lífrænu álagi fjörður, eða afmarkað hafsvæði, getur tekið á móti án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið.

Bæði sjávarútvegsráðuneytið og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendu inn umsögn í tengslum við álitsgerðina þar sem þau andmæltu því að burðarþolsmat væri háð umhverfismati.

Skipulagsstofnun tók hins vegar undir sjónarmið Landssambands veiðifélaga um að burðarþolsmat væri háð ákvæðum laga um umhverfismat.“