Afar góð tíðindi og mikilvægur áfangasigur að þetta leyfi hafi verið fellt úr gildi!

Niðurstaðan er mikill áfellisdómur yfir vinnubrögðum Matvælastofnunar (MAST) sem er, og hefur verið, furðu meðvirk og handgengin sjókvíaeldisfyrirtækjunum.

Málsatvik eru á þá leið að Laxar löggðu fram gögn í umsóknarferlinu þar sem kynnt var að fyrirtækið hyggðist nota stór eldisseiði, að lágmarki 200 g, og sjókvíar með litla möskva, að lágmarki 18 mm legg.

Þegar MAST gaf hins vegar út rekstrarleyfið sagði þar að seiði sem sett verði út í sjókvíarnar kvíar skuli vera yfir 56 g. Þetta ákvæði virtist MAST hafa takið upp að eigin frumkvæði, enda ekki í samræmi við lýsingu Laxa á fyrirhugaðri framkvæmd við eldið.

Útgáfa leyfisins var því kærð og Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) hefur nú dæmt það ólögmætt og fellt úr gildi.

Stærð eldisseiða við útsetningu í sjókvíar skiptir gríðarlega miklu máli við að draga úr skaða á villtum laxastofnum af völdum sleppifisks úr eldi. Það er sorglegur vitnisburður um sinnuleysi MAST gagnvart villtum laxastofnum að leyfið hafi verið gefið út með þeim hætti sem raunin varð.

Við vekjum sérstaka athygli á þessum kafla úr niðurstöðum ÚUA:

„Undir rekstri kærumáls þessa óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu Hafrannsóknastofnunar til þess hvort það geti hafi mismunandi áhrif að notuð séu 56 g seiði í stað 200 g seiða í sjókvíaeldi og hvort hættan á erfðablöndun sé þá sambærileg eða meiri við slysasleppingar.

Í umsögn stofnunarinnar, dags. 29. apríl 2021, er tekið fram að byggt sé á reynslu frá öðrum löndum en ekki beinum rannsóknum hér á landi. Munur geti verið á slysasleppingum, þ.e. þegar fiskar sleppi úr sjókvíum þegar óhöpp af einhverjum toga verði, og svo stroki, þegar seiði smjúgi út úr kvíum gegnum þá möskva sem séu í nótum kvíanna. Þótt oft sé talað um 200 g laxa sem seiði þá séu þeir komnir nærri því að geta kallast unglaxar (e. post-smolt). Er í umsögninni vísað til tækniskýrslu með áhættumatinu og tekið fram að skýrslan byggi á norskum rannsóknum. Samkvæmt þeim dragi úr ratvísi seiða/unglaxa með aukinni stærð og líkur séu á að fiskar sem settir séu í sjókvíar við 200 g og sleppi út séu um 2,5 sinnum ólíklegri til að skila sér inn í ár til hrygningar en fiskar sem settir séu út og sleppi sem seiði (56 g). Munur sem fram komi milli endurheimta 56 g seiða og 200 g seiða geti einnig tengst tíma útsetningar í sjókvíar og séu líkur til endurheimtu meiri ef fiskar séu settir út að vori en síðsumars eða að hausti. Seiði sem séu um 56 g séu lítið stærri en villt gönguseiði þegar þau gangi til sjávar. Á því æviskeiði hafi þau eiginleika til að leggja á minnið“ ferðir sínar og þar með að rata aftur á sleppistað. Ef hann sé í nágrenni áa með villta laxstofna séu líkur á að laxinn leiti aftur þangað þegar líði að kynþroska.

Samkvæmt þeim gögnum sem úrskurðarnefndin hefur aflað geta umhverfisáhrif þess að 56 g seiði sleppi úr sjókvíum orðið önnur og meiri en ef 200 g seiði sleppa. Þau áhrif hafa ekki verið skoðuð í mati á umhverfisáhrifum, en eins og Matvælastofnun hefur sjálf lýst fór fram mat á eldinu miðað við þær mótvægisaðgerðir sem leyfishafi fyrirhugaði, þ.m.t. að notuð yrðu 200 g seiði að lágmarki.“

Sjá frétt Morgunblaðsins.