Vísir og Stöð2 buðu í dag upp á pallborðsumræður um stöðu og þróun laxeldis hér á landi þar sem Jón Kaldal, talsmaður IWF, og Sigurður Pétursson, einn eigenda sjókvíaeldisfyrirtækisins Arctic Fish, tókust á.

Í byrjun þáttarins koma fram ánægjulegar niðurstöður skoðanakönnunar um afstöðu þjóðarinnar til sjókvíaeldis. Í þættinum segir Jón um niðurstöðurnar:

„Eitt er laxeldi sem fer fram með ýmsum aðferðum og annað er sjókvíaeldi sem fer fram í opnum netapokum. Og það er bara aðferð sem er orðin úrelt í þessari framleiðslu, …

Þannig þetta eru ánægjulegar niðurstöður og satt að segja hafði ég nú reiknað með því að það væru enn fleiri á móti þessari aðferð, því það eru ekki bara við sem erum náttúruverndar megin sem höfum verið að benda á galla hennar, heldur hreinlega innanbúðarmenn úr laxeldisgeiranum.“

„Þeir sem eru að framleiða lokaðar kvíar fyrir sjó, sem er í mikilli þróun, og á landi, þeir segja: Sjókvíaeldi er niðurgreitt af náttúrunni. Reikningurinn er sendur til umhverfisins og lífríkisins.“