Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að notkun ásætuvarna, sem innihalda koparoxíð, á netapoka Arctic Sea Farm (ASF) í Patreksfirði og Tálknafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Með nokkrum ólíkindum er að stofnunin hafi komist að þessari niðurstöðu, ekki síst þegar skoðaðar eru umsagnir sérfræðinganna sem leitað var til við vinnslu málsins.

Mjög eitrað lífi í sjó

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar er til dæmis bent á að „samkvæmt öryggisupplýsingum Netwax E5 Greenline ásætuvarnarinnar kemur fram að varan flokkast í áhættuflokkana H400 og H410 (H phrases Physical Haxards). H410 stendur fyrir að efnið sé mjög eitrað í vatni/sjómeð langvarandi áhrifum (very toxic to aquatic life with long lasting effects) og H400 stendur fyrir því að efnið sé mjög eitrað lífi í vatni/sjó (very toxic to aquatic life). Af þessum upplýsingum að dæma er erfitt að taka undir mat ASF að um umhverfisvæna vöru sé að ræða.“

Einbeitt brot um árabil

Skýrsluhöfundar Hafró staldra við ýmislegt annað í þeim upplýsingum sem koma frá Arctic Sea Farm í tengslum við beiðni fyrirtækisins um að nota koparoxíð ásætuvarnir. Þannig nefnir Arctic Sea Farm, sem rök fyrir því að réttlætanlegt sé að nota efnin, reynslu Arnarlax „yfir 8 ára notkun á ásætuvörnum í Arnarfirði“.

Þetta vekur eðlilega furðu Hafró: „Hafrannsóknastofnun er ekki kunnugt um að Arnarlax hafi notað ásætuvarnir sem innihalda kopar svo lengi né um niðurstöður vöktunar á kopar í seti við eldiskvíar Arnarlax enda fékk Arnarlax fyrst leyfi fyrir notkun þeirra árið 2021.“

Þetta er nefnilega staðan og hún segir hörmulega sögu um hversu veik umgjörðin er með þessum skaðlega iðnaði hér á landi. Bæði Arnarlax og Arctic Sea Firm hafa um árabil notað ásætuvarnir með koparoxíði þrátt fyrir að skýrt hafi verið tekið fram í starfsleyfum þeirra að sú notkun væri óheimil. Umhverfsstofnun hefur vakið athygli á þessu en afleiðingarnar hafa ekki verið neinar fyrir fyrirtækin.

Og nú hefur Skipulagsstofnun ákveðið að heimila það sem fyrirtækjunum var bannað en þau hafa engu að síður gert um langa hríð. Fyrirlitningin á lögum og reglum er alger.

Eitur á eitur ofan

Eitrið frá koparnum í ásætuvörninni er grafalvarlegt mál fyrir lífríkið einsog Hafró bendir á:

„Notkun ásætuvarna sem innihalda kopar bætist við aðra álagsþætti sem tengjast fiskeldi, og hafa neikvæð áhrif á hryggleysingja í þessum sömu fjörðum og til umfjöllunar eru hér. Þar er helst um að ræða fremur mikla notkun á laxa- og fiskilúsarlyfjum miðað við þær væntingar sem voru í upphafi eldis, þær að engin lúsarvandamál yrðu hér við land vegna lágs hita sjávar. Óvissa er um langtímaáhrif þessara lyfja í fjörðunum og samverkandi áhrif við notkun kopars geta verið neikvæð. Uppsöfnun lífrænna leifa undir og við eldiskvíar hefur einnig neikvæð áhrif á fjölbreytileika botndýra á eldissvæðum,“ segir í umsögn Hafró en hana er hægt að lesa í heild ásamt öðrum umsögnum á síðunni sem fylgir þessari færslu.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar má kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur til 2. maí.