Ekki sér fyrir endann á hörmungunum af völdum blóðþorra í sjókvíaeldinu í Reyðarfirði. Þessi skæðasti veirusjúkdómur sem getur komið upp í löxum grendist í fyrsta skipti hér við land í sjókvíaeldi Laxa í nóvember. Þá var gripið til þess ráðs að slátra upp úr einni kví, um 65.000 eldisdýrum, og nú hefur verið ákveðið að slátra einnig upp úr öðrum kvíum á sama eldissvæði. Á þessari stundu liggja ekki fyrir upplýsingar um hversu mörgum eldislöxum verður slátrað.

Ekki þarf að koma á óvart ef niðurstaðan verður sú að drepa allan lax í sjókvíum sem eru í Reyðarfirði. Blóðþorri er bráðsmitandi og miklar líkur eru á að sýkingin nái að dreifa sér víða. Þegar blóðþorri kom í sjókvíaeldi við Færeyjar fyrir um tuttugu árum endaði hann með því að leggja allan þennan iðnað þar í rúst á nokkrum mánuðum.

Skv. frétt RÚV:

„Laxar hafa ákveðið að slátra laxi úr öllum kvíum á eldisvæði í Reyðarfirði. Veira sem getur valdið blóðþorra greindist í einni kví þar í síðasta mánuði.

Þetta var í fyrsta sinn sem sjúkdómsvaldandi afbrigði svokallaðrar ISA-veiru greindist í laxi hér á landi. Hún tilheyrir inflúensuveirum og er stundum kölluð laxaflensa. Veiran uppgötvaðist við krufningu og sýnatöku eftir að óeðlilega mikið af laxi drapst í einni kvínni. Ákveðið var í samráði við Matvælastofnun að aflífa og farga öllum laxi í kvínni. Fiskurinn var frekar ungur og langt frá því að vera kominn í sláturstærð. Eftirlit var aukið með fiski í öðrum kvíum á eldisstöðinni og var skimað eftir veirunni.“