Hér er merkilegt mál á ferðinni. Þegar Matvælastofnun (MAST) ákvað að hafna ósk manns um innflutning á norskum hænum vísaði hún til neikvæðs álits meirihluta erfðanefndar landbúnaðarins, sem okkur hjá IWF finnst vel að merkja byggja á skynsamlegu varúðarsjónarmiði. Minnihluti nefndarinnar var á öðru máli og vildi leyfa innflutninginn en MAST ákvað að fara varlega.

Það sem er athyglisvert er að erfðanefnd landbúnaðarins er og hefur lengi verið algjörlega samstíga í því að leggjast gegn notkun á frjóum, norskum eldislaxi í sjókvíaeldi við Íslandsstrendur. „Sú afstaða var rökstudd og hefur ekki breyst enda m.a. í samræmi við varúðarreglu náttúruverndarlaga,“ kom fram í einni umsögn nefndarinnar.

Engu að síður hafa íslensk stjórnvöld, þar á meðal MAST, heimilað að norskur eldislax sé alinn hér í opnum sjókvíum. Síðastliðið sumar voru til dæmis um 25 milljónir slíkir í sjókvíum við Ísland.

Til samanburðar var sótt um innflutning á sextíu frjóum hænsnaeggum frá norska genabanka en nota átti hænurnar fyrir smábúskap og sem bakgarðshænur í þéttbýli.

Í frétt Vísis segir

Matvælaráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Matvælastofnunar að hafna beiðni manns sem sótti um leyfi til að flytja inn sextíu frjó hænsnaegg frá norska genabankanum sem henta fyrir smábúskap sem og bakgarðshænur í þéttbýli. Erfðanefnd landbúnaðarins klofnaði í málinu en meirihlutinn taldi íslensku landnámshænunni stafa ógn af norskum stofnum.

Það var í apríl 2022 sem maðurinn sótti um innflutningsleyfi á frjóeggjum hænsnastofnanna „Barred Plymouth Rock“ og „Rhode Island Red“ frá Noregi. Matvælastofnun óskaði eftir því að erfðanefnd landbúnaðarins fjallaði um umsóknina. Nefndinni sem skipuð er sjö manns tókst ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Fór svo að meirihlutinn og minnihlutinn skiluðu ólíkum umsögnum. Meirihlutinn taldi að með innflutningi myndu aukast líkur á erfðablöndun við íslenska stofninn og þar með útþynningu hans. Auk þess gæti innflutningur á stofnum sem eru samnytja skapað aukna samkeppni við íslensku landnámshænuna sem gæti leitt til fækkunar stofnsins sem sé viðkvæmur og þurfi að vernda.

Í frekara áliti meirihlutans í október 2022 að beiðni Matvælastofnunar kom fram að hænsnastofnarnir norsku væru í beinni samkeppni við landnámshænuna. Íslenski hænsnastofninn væri í viðkvæmri stöðu og innflutningur á samnytja stofnum gæti leitt til fækkunar og erfðablöndunar.