Kort vísis af ám þar sem strokulaxar hafa veiðstÞetta er ótrúleg frásögn. Um síðustu helgi náðu Elías og félagar með sínum persónulega búnaði jafnmikið af eldislaxi og Fiskistofa hafði áður gert en fulltrúar hennar voru hvergi sjáanlegir á svæðinu.
Það er hreint með ólíkindum að starfsfólk Fiskistofu sitji með hendur í skauti sér við þessar aðstæður.

Samkvæmt lögum um fiskeldi er Fiskistofu heimilt, að fengnu samþykki stjórnar veiðifélags eða veiðiréttarhafa, þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað, að mæla fyrir um að leitað verði að sleppifiski ur sjókvíaeldi í nærliggjandi veiðiám eða vötnum og hann fjarlægður.

Ekki er hægt að kenna um að Fiskistofa hafi ekki fjármagn fyrir slíkum aðgerðum því sjókvíaeldisfyrirtækin sem missa eldislax úr netapokum sinum eiga að greiða þennan kostnað.

Við erum stödd í miðju neyðarástandi þar sem Fiskistofa ætti með réttu að vera í forystu aðgerða. Hvernig hún hefur brugðist við, eða réttara sagt ekki brugðist við, er sérstakt rannsóknarefni.

Umfjöllun Vísis:

Grunur er um það að strokulax hafi komist mjög víða í ár á Vestfjörðum og allt að ám í Húnavatnssýslu. Tæpar tvær vikur eru frá því að greint var frá gati á sjókvíum í Patreksfirði. Veiðimenn furða sig á litlu eftirliti Fiskistofu og hafa miklar áhyggjur af villta íslenska stofninum.

Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson stangveiðimaður segir veiðiferð hans og tveggja félaga sinna, Gissurar Karls Vilhjálmssonar og Brynjars Arnarssonar, hafa tekið algera U-beygju þegar þeir sáu hversu mikið magn var af laxi sem bar einkenni eldislax víða í þeim ám sem þeir heimsóttu síðustu helgi fyrir vestan.

Allir eru þeir þrír reyndir veiðimenn og meðlimir í Félagi ungra í skot- og stangveiðifélaginu,(FUSS) og ungliðahreyfingum NASF og IWF. …

„Við ákváðum að fara vestur til veiða og vorum með leyfi í Vatnsdalsá í Vatnsfirði og ákváðum að nýta tækifæri og skoða stöðuna í öðrum ám,“ segir Elías

Þeir byrjuðu á að skoða stöðuna í Sunddalsá við botn Arnarfjarðar.

„Á sólarhring þar fengum við sex eldislaxa sem voru allir mjög illa haldnir. Þeir voru með sár, tætta ugga og þaktir lús. Villti fiskurinn sem við fengum var líka þakinn lús og það kom okkur á óvart að við skyldum ekki sjá neinn starfsmann frá Fiskistofu við leit að laxi í þessum ám,“ segir Elías.

Hann segir að í Sunddalsá hafi verið töluvert meira af eldislaxi en þeir náðu að veiða.

„Við sáum fiska í einum hyl við brúnna. Þar voru átta fiskar og sex af þeim voru með öll einkenni eldislaxa,“ segir hann og að einnig hafi þeir séð þrjá aðra nær ósnum og að þeir hafi sloppið út í sjó aftur.

Elías segir þá félaga næst hafa farið að Ósá í Patreksfirði og hafi séð lax hoppa þar sem bar sömu einkenni. Þar hittu þeir líka heimamann sem sagðist hafa veitt tíu eldislaxa nokkrum dögum áður í ánni.

„Þessi maður sagðist hafa veitt meira en hundrað eldislaxa þar á síðustu árum.“

Elías segir að þá hafi þeir félagar einnig séð ummerki eftir veiðimenn við bakka árinnar, bæði laxahreistur og girni.

„Það er fróðlegt ef litið er til þess að enginn þessara fiska er svo að skila sér til Hafrannsóknarstofnunar í greiningu, líkt og mælst er til að gert sé þegar eldislaxar veiðast. Það virðist því vera töluvert meira af eldislaxi á svamli þarna um firðina en menn gruna.“ …

„Fiskarnir sem sluppu á Patreksfirði um daginn eru 80 sentímetrar og allt að sjö kíló. Þeir eru stórir og þéttir og oft gleymist það í umræðunni að eldislaxinn er með sporð og getur synt nokkuð langt.“ …

Hann segir eldislaxinn ekki einu hættuna sem steðji að þeim íslenska villta og nefnir einnig hnúðlaxinn. Hann hefur veiðst hefur um árabil í íslenskum ám. Á Vísindavef Háskóla Íslands segir um hnúðlaxinn að hann megi rekja til tilrauna Rússa til að koma á legg hnúðlaxastofnum í rússneskum ám. Í framhaldi af því hafi fljótlega farið að bera á hnúðlöxum í öðrum ám í Evrópu, þar á meðal í íslenskum ám.

„Við drápum 30 hnúðlaxa líka í þessari ferð. Þeir voru út um allt og meðal annars í Sunddalsá. Þeir auðvitað blandast ekki íslenska laxinum eins og eldislaxinn, en þeir eru bara fyrir. Við vitum ekki hvernig á að stöðva útbreiðslu þeirra. En það er hægt að stöðva útbreiðslu þessara norskættuðu eldislaxa með því að banna laxeldi í opnum sjókvíum,“ segir Elías ákveðinn.

Hann segist hræddur um afdrif villta íslenska laxins og telur að meira þurfi að gera til að vernda hann.

„Villti íslenski laxinn hefur verið hér í þúsundir ára og þróast þannig að hann geti lifað þessi erfiðu heimkynni. Þegar hann blandast við þennan norska, sem hann á afar lítið sameiginlegt með, veldur það því að afkvæmi þeirra eiga litla von um að lifa af. Þar af leiðandi minnkar stofninn.“ …

Frá því að þeir félagar komu heim úr veiði hefur hann fylgst vel með umræðunni og segist hafa heyrt af strokulöxum í Blöndu en Guðmundur Haukur Jakobsson varaformaður Veiðifélags Blöndu og formaður sveitarstjórnar í Blönduósi staðfestir þetta.

„Ég var ekkert að veiða. Ég var að hreinsa teljarann á myndavélinni í laxastiganum í Blöndu því ég er með hann stilltan þannig að fiskar komast upp í teljarann, en ekki upp í ánna. Ég háfaði níu laxa upp núna í hádeginu í gær,“ segir Guðmundur Haukur. …

„Að háfa upp níu sjö kílóa fiska. Það er allt rangt við það og algerlega galið.“

Guðmundur Haukur segist ætla að halda áfram að fylgjast með en telur líklegt að miklu meira magn sé í umferð af strokulaxinum og hefur miklar áhyggjur af því hvert hann geti farið.

„Við erum að tala um Hrútafjarðará, Víðidalsá, Miðfjarðará, Vatnsdalsá, Laxá á Ásum, Blöndu og Svartá og Gljúfurá, Laxá í Refssveit og Hallá. Þetta er umhverfisslys. Maður er hálfhvumsa yfir þessu.“

Eins og fram kom í fréttinni að ofan hefur fréttastofa leitað viðbragða hjá Fiskistofu vegna málsins. Þau verða birt um leið og þau birtast. Samkvæmt lögum er það hlutverk Fiskistofu, ef fyrir liggur rökstuddur grunur um strokufisk úr eldi í sjó, að kanna hvort það hafi átt sér stað og bregðast við því.