Þetta frumvarp var unnið á vakt Svandísar Svavarsdóttur og Katrínar Jakobsdóttir í Matvælaráðuneytinu. Það má aldrei verða að lögum.

Frumvarpið er svik við náttúru og lífríki Íslands. Í því fellst óafturkræft framsal á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Við neitum að trúa öðru en að Bjarkey Olsen, nýr matvælaráðherra dragi þetta til baka.

Kvótakerfið hið fyrra var sett til að stöðva rányrkju á fiskistofnum þjóðarinnar. Ef þetta kvótakerfi Vinstrigrænna verður að lögum þá er fest í sessi ótímabundið kerfi sem spillir náttúrunni og lífríkinu.

Einsog lögin eru nú er einfaldlega hægt að láta leyfi fyrir sjókvíaeldi renna út, gildistímiinn er 16 ár, og hætta svo þessari starfsemi. Sú leið hefur verið tekin út í frumvarpinu.

Þegar áform um uppfærða löggjöf um fiskeldi voru kynnt síðastliðið haust sagði Svandís að nú ætti að herða mjög viðurlög við brotum sjókvíaeldisfyrirtækjanna.

Í þeim drögum sem siðar voru kynnt var gert ráð fyrir að fyrirtækin myndu á endanum misst leyfi ef þau létu fisk sleppa endurtekið úr sjókvíunum.

Í frumvarpinu sem sent var til þingsins þegar Katrín Jakobsdóttir var að leysa Svandísi af í ráðuneytinu er búið að taka þessi ákvæði alfarið út
Þá nefndi Svandís i haust að hert yrði á dýravelferðarákvæðunum þannig að ástandið yrði eins og það er best í öðrum löndum. Að mikil afföll myndu kosta fyrirtækin leyfin á endanum.

Ákvæðið um afföllin endaði hins vegar þannig í frumvarpinu að fyrirtækin mega láta yfir 20 prósent af eldislöxunum drepast 18 tímabil í röð áður en kemur að sviptingum leyfis. Það er lengri tími en núgildandi leyfi gilda.

Hvað kom eiginlega fyrir VG?

Í ítarlegri umfjöllun Heimildarinnar segir ennfremur:

Líkja má þessu ákvæði frumvarpsins við þá grundvallarbreytingu í sjávarútvegi þegar frjálst framsal fiskveiðikvótans var heimilað hér á landi árið 1990. Frjálsa framsalið gerði kvótahöfum heimilt að veðsetja og selja kvótann sem þeir höfðu fengið úthlutað jafnvel þó að hann væri ekki formleg eign þeirra heldur íslensku þjóðarinnar. Þessi lagabreyting um frjálsa framsalið er eitt mesta álitamál síðari tíma á Íslandi. Hún hefur verið nær stöðugt í umræðunni síðastliðin rúm 30 ár og var meðal annars umfjöllunarefni í sjónvarpsþáttunum Verbúðinni sem vöktu mikla athygli fyrir tveimur árum.

Í lagafrumvarpinu um fiskeldið er hins vegar í raun gengið lengra þar sem kvótinn í sjávarútvegi er enn ekki formlega séð eign útgerðarfélaganna þó þau geti farið með hann eins og eign sína í öllum lagalegum skilningi. Stjórnvöld á Íslandi gætu formlega séð innkallað kvótann, eins og talað hefur verið um þegar rætt hefur verið um það af stjórnmálaflokkum eins og Viðreisn að bjóða aflaheimildir upp.

Miðað við orðalagið í frumvarpinu um laxeldi verður þetta hins vegar ekki hægt með kvótann í sjókvíaeldinu.

Í athugasemdum með lagafrumvarpinu segir að efni greinarinnar sé „nýmæli“ en hingað til hafa rekstrarleyfin verið til 16 ára. Færð eru rök fyrir ákvæðinu með þeim hætti að með því fái sjókvíaeldisfyrirtækin meiri fyrirsjáanleika í rekstri sínum með „ótímabundnu“ rekstrarleyfi og „réttaráhrif gildistíma“ verði ljósari með þessu.

Orðrétt segir um þetta: „Efni greinarinnar er nýmæli en lagt er til að rekstrarleyfi í sjókvíaeldi séu ótímabundin. Það er hins vegar ávallt skilyrði að rekstrarleyfishafi fari að öllum ákvæðum laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, og reglum settum með stoð í þeim svo hægt sé að líta á rekstrarleyfi sem ótímabundið. […] Er hér miðað við það, sem eðlilegt er, að auknum og betri réttindum fylgi aukin ábyrgð og skyldur. Rekstrarleyfishafar þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því að leyfi renni sjálfkrafa úr gildi á tilteknum degi en hins vegar verða þeir að þola að meiri kröfur séu gerðar til þess að þeir standi undir þeim kröfum sem gerðar eru til eldis og reksturs þess lögum samkvæmt.“