Haraldur Eiríksson stjórnarmaður í IWF ogf Atlantic Salmon Trust bendir á fílinn í postulínsbúðinni. Í greininni sem birtist á Vísi segir m.a.:

„Frá því að sjókvíaeldisbylgjan hin þriðja fór af stað fyrir um tíu árum hér við land, hafa Íslendingar gefið framleiðslukvóta í sjókvíaeldi í lögsögu sinni án útboðs eða endurgjalds. Arnarlaxi hafa verið færðir framleiðslukvótar á laxi að andvirði 35 til 40 milljarða ef miðað er við gangverð slíkra kvóta í Noregi í dag. Þeim sem telja ekki hægt að bera saman gangverð laxaframleiðslukvóta á Íslandi og Noregi skal bent á þá staðreynd að það er styttra frá Osló til Íslands, en frá Osló til sjókvía í Norður-Noregi.

Nú rétt fyrir áramótin skráði Arnarlax sig, og um leið framleiðslukvótana sem þeir fengu gefins hérlendis, í Kauphöllina í Osló. Þar hefur verð hlutabréfanna tvöfaldast á nokkrum vikum og er nú metið á um áðurnefnda 40 milljarða króna. Þetta er nákvæmlega það sem framleiðslukvóti fyrirtækisins á Íslandi hefði kostað í Noregi. Það má því leiða líkur að því að þarna hafi almenningur á Íslandi verið hlunnfarinn því kvótinn er langstærsta eign fyrirtækisins.

Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í norðvesturkjördæmi, fór nýlega fram á að stjórnsýsluúttekt yrði gerð á Hafrannsóknastofnun, meðal annars á þeim forsendum að stofnunin væri of treg að hans mati til að auka við framleiðsluleyfi þessara norsku sjókvíaeldisfyrirtækja. Þetta er sérlega ómakleg árás á Hafró, eingöngu byggð á því að niðurstaða vísindafólksins þar hefur ekki verið varaþingmanninum þóknanleg.

Hitt er svo annað mál að hugmyndin um stjórnsýsluúttekt er góð. Sú úttekt ætti hins vegar að snúast um hvernig það gat gerst að örfáum vinum ráðandi afla hér á landi voru færðir framleiðslukvótar í sjókvíaeldi upp á milljarða. Kvótar sem þeir hafa nú selt úr landi með ótrúlegum hagnaði.“