Veturinn 2020 voru fyllt á hverjum degi átta til tíu kör af helsærðum eldislaxi úr sjókvíum i Reyðarfirði. Ástæðurnar voru kuldi og vetrarsár á fiskinum. Við vörum við myndefni sem birtist í þessari nýju frétt Stundarinnar. Það hefur ekki verið sýnt áður.

Afleiðingar yfirstandandi kuldakasts fyrir eldislax í sjókvíum við Ísland eiga eftir að koma í ljós en miðað við reynsluna frá síðustu frosthörkum verða þær ömurlegar.

Athugið að framleiðendur hika ekki við að nýta sem mest af svona særðum fiski til að senda í reyk eða gera úr graflax. Munið að spyrja alltaf hvaðan laxinn kemur.

Sjókvíaeldi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Í frétt Stundarinnar segir:

Myndband og myndir sem teknar voru í þjónustuskipi hjá Löxum fiskeldi í Reyðarfirði um haustið og veturinn árið 2020 sýna lifandi og dauða eldislaxa sem höfðu verið fjarlægðir úr sjókvíum fyrirtækisins í firðinum vegna vetrarsára. Á síðustu mánuðum ársins 2020 kólnaði sjórinn þar sem umræddar sjókvíar eru mjög hratt sem leiddi til þess að Laxar lentu í erfiðleikum með vetrarsár á eldislöxum og þurftu starfsmenn fyrirtækisins að fjarlægja mikinn fjölda fiska.

Þessi staða kom upp um haustið – fyrstu myndirnar eru frá 1. október – og var ástandið í kvíunum erfitt vegna þess út árið en flestar myndanna sem Stundin hefur undir höndum voru teknar í desember árið 2020. Um er að ræða myndir frá einungis einu kvíastæði í Reyðarfirði en laxar reka þar þrjú eldisstæði: Bjarg, Gripaldi og Sigmundarhús. Samkvæmt heimildum Stundarinnar fjarlægðu starfsmenn 8 til 10 kör af sárugum og dauðum fiski á hverjum degi úr kvíunum á tímabili. …

Á myndum sem teknar voru um borð í þjónustuskipinu í Reyðarfirði sjást vetrarsárin á eldislöxunum vel. Vetrarsárin geta myndast þegar mikill kuldi er í lofti og vindasamt. Fiskurinn  getur særst þegar hann berst utan í netin í kvíunum og sár geta komið á roð hans.

Slík vetrarsár á eldislöxum gera það að verkum að sýkingar geta komist í fiskinn og er slíkur eldislax ekki hæfur til manneldis. Eldislaxa með vetrarsár þarf því að nota með öðrum hætti, til dæmis í meltu, dýrafóður.  Enn meiri líkur eru á að slík vetrarsár myndist þegar eldislaxinn er orðinn stór og þrengsli í sjókvíunum eru mikil og meiri líkur eru á því að fiskurinn berjist utan í kvíarnar og verði sárugur.

Þrengsli í sjókvíum geta meðal annars stafað af því að sett hafi verið of mikið af eldislöxum í þær með það fyrir augum að auka hagnað af starfseminni.