Staðfest hefur verið með rannsóknum að norskur sjókvíaeldislax hefur gengið í ár í Svíþjóð og blandast þar villtum stofnum. Þetta eru ár sem eru langt frá norsku sjókvíunum, en reglulega má sjá fulltrúa sjókvíaeldisfyrirtækjana halda því fram að þetta geti ekki gerst. Að eldislax sem sleppur lifi ekki af utan kvíanna og syndi ekki langt. Þetta er rangt eins og þessar rannsóknir og aðrar staðfesta.

Þrátt fyrir að sjókvíaeldi sé ekki heimilt hér við land utan Vestfjarða og hluta Austfjarða er lax í öllum ár landsins í hættu. Stöðugur leki smálaxa úr sjókvíunum er lúmskasti og mesti skaðinn. Sá fiskur blandast villtum laxi, fer jafnvel með honum á fæðuslóð í hafinu og snýr svo aftur í árnar að útliti einsog villtur lax en með sprengiefni í erfðaefni sínu fyrir villta stofninn sem hann blandast.

Með því að heimila sjókvíaeldi á laxi er brotið á sjálfstæðum tilverurétti villtu laxastofnanna í náttúru Íslands sem þeir eiga samkvæmt lögum um náttúruvernd og samningi Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er aðili að, um líffræðilega fjölbreytni en hann leggur áherslu á að vernda lífríki á öllum skipulagsstigum þess, þar með talið þeirra erfðaauðlinda sem lífríkið býr yfir.

Viðmið Hafrannsóknastofnunar um að 4% erfðablöndun sé ásættanleg samræmist ekki þessum markmiðum og lögum. IWF krefst þess að viðmið áhættumatsins verði fært niður í 0.

Þau fyrirtæki sem vilja stunda sjókvíaeldi eiga að tryggja að fiskur sleppi ekki út í náttúruna. Villtir laxastofnar eiga ekki að bera neina áhættu af þessari starfsemi.