Verður blóðþorralax á borðum Íslendinga á næstum vikum? Hver vilja ferskan, reyktan eða grafinn blóðþorra?

Sjókvíaeldisfyrirtækið Laxar eru nú að slátra í gríð og erg upp úr kvíum af eldissvæði þar sem þessi banvæni sjúkdómur fyrir laxa greindist í fyrsta skipti hér við landið. Forráðamenn hafa gefið það út að þessi sýkti eldislax muni fara á neytendamarkað og taka það fram að blóðþorraveiran sé ekki hættuleg fólki.

Heldur er þetta nú allt óyndislegt, svo það sé varlega orðað.

Í skoðanakönnun sem var gerð fyrr á þessu ári kom fram að 69 prósent aðspurðra vilja að koma eigi fram á umbúðum eldislax hvort hann komi úr sjó­kvía­eldi eða landeldi. Auðvitað á nafn framleiðanda að koma líka skýrt fram í þeim merkingum. Neytendur eiga að geta sniðgengið vöru sem er framleidd með aðferð sem er skaðleg náttúrunni, lífríkinu og eldisdýrunum sjálfum.

Athugið að dýralæknir fisksjúkdóma hjá MAST hefur sagt að það sé hans mat að aðstæður eldislaxanna í sjókvíunum í Reyðarfirði hafi valdið því að ISA veiran hafi stökkbreyst í þessa banvæna útgáfu. Ónæmiskerfi eldislaxanna brast vegna bágra aðstæðna með þessum hrikalegu afleiðingum.

Þekkt er að miklar líkur eru á að uppi komi á endanum alvarlegir sjúkdómar í öllu þauleldi og verksmiðjubúskap, þar sem miklum fjölda dýra er haldið lengi saman á margfalt þrengra svæði en er þeim náttúrulegt.

Munið að spyrja í verslunum og á veitingastöðum hvaðan laxinn kemur.

Laxeldi í opnum sjókvíum er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Skv. umfjöllun Fréttablaðsins:

„Gallup greinir svörin meðal annars eftir búsetu, kyni, aldri og stjórnmálaskoðunum. Þar kemur til dæmis fram að stuðningur við upprunamerkingar er minnstur meðal kjósenda Miðflokksins. Af þessum hópi segjast þó 50 prósent annað hvort sammála eða mjög sammála því að merkja eigi umbúðirnar. Það eru síðan kjósendur Pírata sem lýsa mestum stuðningi við merkingarnar. Af þeim eru 84 prósent sammála eða mjög sammála.

„Það er mjög ánægjulegt að yfirgnæfandi meirihluti íslenskra neytenda vill fá þessa upprunamerkingu á umbúðir utan um eldislax. Rekjanleiki og upplýsingar um hvaða aðferðir eru notaðar við matvælaframleiðslu skiptir fólk greinilega máli,“ segir Jón Kaldal, talsmaður umhverfissjóðsins Icelandic Wildlife Fund, um niðurstöður könnunarinnar.“