Við tökum undir með Neytendasamtökunum. Auðvitað á að skylda laxeldisfyrirtæki til þess að merkja uppruna fisks og að merkja sýktan fisk sem fer til manneldis með skýrum hætti.

Þekkt er úr sjókvíaeldisiðnaðinum að fyrirtækin senda eldislax sem er sýktur ýmsum sjúkdómum í verslanir. Einnig stunda þau að taka eldislax sem ber sár eftir lús eða bakteríusýkingar og setja á markað sem fiskborgara ef þau geta ekki gert úr honum flök vegna sáranna.

Merkingar hljóta að vera auðsótt mál nema ef fyrirtækin telji sig hafa eitthvað að fela.

Við vitum hins vegar að sjókvíaeldisfyrirtækin munu berjast gegn merkingum því auðvitað mun fólk ekki kaupa þennan hrylling ef það hefur allar upplýsingar.

Í umfjöllun RÚV segir:

… Í erindi Neytendasamtakanna er vísað til þeirrar grunnkröfu neytenda að fá nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið upplýsta ákvörðun og njóta verndar gegn misvísandi og röngum upplýsingum.

Erindið var sent ráðuneytinu á mánudag, eftir að fréttir bárust af hugmynd norsku neytendasamtakanna um að merkja eldisfisk í verslunum. Lax sem seldur er sem fyrsta flokks vara í norskum verslunum gæti hafa borið ýmsa sjúkdóma áður en honum er slátrað til neyslu.

Inger Lise Blyverket, stjórnandi norsku neytendasamtakanna, telur að neytendur vilji vita hvort fiskurinn hafi borið einhverja sjúkdóma áður en honum var slátrað. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, tekur undir þessa kröfu.

Á þetta er bent í erindi neytendasamtakanna og segir að neytendur séu ekki upplýstir um aðbúnað í fiskeldi eða hvort fiskur hafi verið sjúkur og dauðvona þegar honum var slátrað. Ýmis lönd í Evrópu hafi tekið upp velferðarmerkingar á dýraafurðir, til að mynda Danmörk og Holland.
„Krafa neytenda er fullar upplýsingar um uppruna og framleiðsluaðstæður þess matar sem þeir neyta. Neytendur vilja gagnsæi í matvælaiðnaði,“ segir í erindi samtakanna. …