Í nýjustu útgáfu Neytendablaðsins kemur fram að Neytendasamtökin hafa óskað eftir að Neytendastofa taki afstöðu til þess hvort orðanotkun Norðanfisks á „vistvænu sjóeldi“ á umbúðum utanum sjókvíaeldislax sé villandi í skilningi laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Fyrirtækið Norðanfiskur, sem pakkar og selur meðal annars sjókvíaeldislax, merkir umbúðirnar með þessum hætti. Norðanfiskur svaraði fyrirspurn Neytendasamtakanna um málið á þá leið að birgjar þeirra skilgreindu sjálfir sitt eldi sem vistvænt en hefðu ekki hlotið neinar vottanir.

Er þetta óvenju ósvífið af hálfu viðkomandi fyrirtækja. Sjókvíaeldi er beinlínis flokkað sem mengandi iðnaður af hálfu opinberra stofnana enda fer allt skólp frá framleiðslunni, skítur fiskanna, fóðurafgangar, lyf og eiturefni gegn sníkjudýrum, beint í sjóinn í gegnum netmöskvana. Við þetta bætist skaðinn sem sjókvíaeldið veldur á villtum stofnum með erfðablöndun.