Áverkarnir á lifandi eldislöxum í sjókvíum Arctic Fish eru svo hræðilegir að við höfum aldrei séð annað eins, né vitum til að nokkuð þessu líkt hafi átt sér stað í sjókvíaeldi i öðrum löndum.

Hver einasti eldislax sem sést svamla um í dauðateygjum í myndskeiðunum sem birt eru í frétt Heimildarinnar er með meiriháttar sár sem þekja allt höfuð þeirra. Laxaúsin hefur étið hreistur og hold inn að beini og bakteríusýkingar sem blossa upp í sárunum gera þau enn hræðilegri.

Þetta er ekki aðeins alvarlegasta dýravelferðarmál sem hefur komið upp í eldi og húsdýrahaldi hér á landi heldur örugglega eitt það versta í sögu sjókvíaeldis í heiminum.

Ganga má út frá því sem vísu að myndböndin sem Veiga Grétarsdóttir Sulebust fangaði í Tálknafirði verði sýnd í fréttatímum víða um lönd.

Mowi, aðaleigandi Arctic Fish, er stærsta sjókvíaeldisfyritæki í heiminum. Það er heimsfrétt hvernig það stendur að verki.

Þjáningar vesalings eldislaxanna hafa verið ólýsanlegar.

Norsku sjókvíaeldisfyritækin hafa ítrekað verið staðin að því slátra fiski sem er illa farinn af lús, skera burt lúsaskaðann og senda stykki á markað sem til dæmis fiskborgara.

Hugsið ykkur að neytendum skuli vera boðið upp á bita af skepnum sem hafa þjáðst með þessum hætti.

Eldislaxar Arctic Fish hafa þó líklega allir farið í förgun, svo hræðilega illa voru þeir útleiknir.

Einu réttu viðbrögðin við svona ástandi er að svipta fyrirtæki sem fara svona með dýr strax starfsleyfi.

Rétt er að taka það fram að sama ástand var í sjókvíum Arnarlax á svæðinu. Í því fyritæki er líka norskur forstjóri einsog hjá Arctic Fish. Við Íslendingar höfum því ekki aðeins flutt inn þessa ömurlegu tækni við laxeldi heldur einnig slæma siði sem iðnaðurinn hefur tamið sér í Noregi.

Í umfjöllun Stundarinnar segir m.a.:

… Veiga Grétarsdóttir, kajakræðari og náttúruverndarsinni sem á í samstarfi við náttúruverndarsamtökin Icelandic Wildlife Fund og Verndarsjóð villtra laxastofna (NASF), var í Tálknafirði í lok síðustu viku og tók upp myndbönd af laxadauðanum og -förguninni hjá Arctic Fish. „Ég var í Tálknafirði, sirka þrjá kílómetra frá kvíunum, setti drónann á loft og byrjaði bara að fljúga yfir þær. Ég var með dróna sem er með þremur linsum, meðal annars tvær zoom-linsur, og gat bara verið í hæfilegri fjarlægð frá kvíunum,“ segir Veiga þegar hún lýsir því hvernig hún tók myndbönd af lús- og bakteríuétnum eldislöxum í kví Arctic Fish í Tálknafirði. Hún segist hafa flogið drónanum niður í 100 metra hæð yfir sjókvíunum til að ná myndefninu.

… Þegar hún kom í Tálknafjörð sá hún báta við kvíarnar, meðal annars erlent dæluskip, Hordafor, sem notað hefur verið ítrekað til að taka dauðan eldislax úr sjókvíum hér við land, sigla með hann til Noregs þar sem melta – dýrafóður – er gert úr honum. Dæluskipið vinnur þannig að barki er settur ofan í kvínna og dauðum fiski sem leggst á botn netapokans er dælt upp og í skipið. Vegna þess að svo mikið er af dauðum laxi í kvíunum sem Veiga tók myndbönd af þá kemur fita og grútur upp á yfirborðið og sést þetta vel á myndböndunum frá henni. …

Veiga vissi hins vegar ekki neitt um það hvernig myndefnið sem hún næði myndi vera þegar hún byrjaði að taka upp með drónanum. „Nei, nei, nei. Ég vissi bara að það var verið að slátra og dæla fiski upp úr kvíum. Svo kom bara þetta sjokk.“

„Sjokkið“ sem hún vísar til að hún hafi orðið fyrir, er vegna þess að „allir“ eldislaxarnir sem sjást á myndskeiðunum voru lús- og bakteríuétnir. „Hver og einn einasti. Þegar ég sá þetta zoomaði ég alltaf lengra og lengra inn. Ég gat bara ekki hætt að mynda, þetta var svo skelfilegt. Ég man ekki eftir því að hafa séð einn heilbrigðan fisk. Ég hef aldrei séð annað eins. Þarna voru fiskar að synda hver á annan, fiskar að synda utan í kvínna og svo voru dauðir fiskar,“ segir Veiga.

Eitt af því sem merkilegt við myndböndin frá Veigu er að eldislaxarnir eru á þremur mismunandi stigum dauðaferlisins. Enginn þeirra er heilbrigður og ósárugur. „Þeir eru étnir lifandi þarna í þúsundatali,“ segir hún.

Mikill meirihluti eldislaxanna sést syndandi um með sár eftir laxalús ofan á höfðinu.

Svo sjást eldislaxar sem eru í dauðateygjunum, eru byrjaðir að snúast á hliðina og missa mátt þannig að kviðurinn á þeim er allur sýnilegur á drónaskotunum.

Loks sjást dauðir eldislaxar fljótandi á yfirborðinu eða rétt undir því.

Það sem myndböndin geta hins vegar ekki sýnt eru dauðu laxarnir sem hafa sokkið til botns og liggja á botni kvíarinnar. Sá dauði er undir yfirborðinu. …