Við deilum hér færslu af Facebook síðu Vá félagi um vernd fjarðar, sem er hópur baráttufólks á Seyðisfirði. Hún er merkileg atburðarásin sem þar er lýst:

„Múlaþing tók nýlega fyrir erindi sem við sendum þeim þar sem við bentum þeim á athugasemd okkar lögfræðings sem telur að skipulagsvald ytri hafnar sé hjá sveitarfélaginu. Sveitarstjóri brást þannig við erindinu að fá lögfræðiálit á móti okkar sem sagði hið gangstæða. Lögfræðingur sambands íslenskra sveitarfélaga segir að hvorugt álitið sé fullkomið, sem segir okkur að þarna sé kannski eitthvað óskýrt í löggjöfinni. Ekki kom fram í fundargögnum að leitað hefði verið til sambandsins fyrir fundinn – nei það hentaði sennilega ekki.

En eftir stendur eins og Jódís Skúla segir og leggst á árar með okkur í þessarri baráttu – “Af hverju styður sveitarstjórn einkahagsmuni en ekki íbúa sína.” Af hverju eyðir hún fjármagni í lögfræðiálit gegn íbúum í stað þess að leita leiða til að styðja þá?” Lögfræðiálitið sem sent var inn sem athugasemd vegna frummatskýrslu Fiskeldi Austfjarða og félagið fjárfesti í er nefnilega athugasemd sem hefði átt að koma frá sveitarfélaginu. En það hentar þeim vel að hafa ekkert vald þá þarf sveitarstjórn ekki að taka á þessu vandamáli sem mótmæli íbúa eru og geta hleypt áformunum í gegn snuðrulaust.

Það eru vonbrigði að nánast allir sveitarstjórnarmenn greiði þessarri leið meirihlutans atkvæði sitt. Það eru bara þær Hildur Þóris sem situr hjá og Jódís Skúladóttir sem er ein á móti þessari framgöngu. Þröstur Jónsson má líka eiga það að hann vill ekki sjá sjókvíaeldi í firðinum í andstöðu við íbúa – þó hann sé talsmaður sjókvíeldis í grunninn og hann segir að það geti ekki orðið að veruleika í andstöðu við íbúa – við vonum að hann hafi rétt fyrir sér og leyfum stuttum bútum úr beittri ræðu Jódísar að fylgja með og þökkum stuðninginn – hún er skörp, talar af skynsemi og frá hjartanu – það er kærkomið í pólitík.“