Helmingur laxa sem fangaðir voru í Mjólká reyndust vera eldislaxar. Hinn hlutinn voru villtir laxar. Ef vitað hefði verið það sem við vitum nú um fjölda vatnsfalla með villtum laxi á sunnanverðum Vestfjörðum hefði sjókvíaeldi aldrei verið leyft þar.

Villti íslenski laxastofninn telur á milli 50.000 og 60.000 fiska. Það er gjörvallur stofninn. Arnarlax var með 120.000 eldislaxa í þessari einu sjókví sem gat kom á í fyrra.

Alls voru á síðasta ári um 16 milljónir eldislaxa í sjókvíum við Ísland og framleiðslan var um 40.000 tonn. Norsk yfirvöld telja að einn eldislax sleppi að meðaltali fyrir hvert tonn sem alið er. Ýmist vegna hins stöðuga leka sem er úr sjókvíunum eða í stærri sleppislysum. Þetta gerist á hverju ári.

Þessi eldisdýr blandast svo villtum laxastofnum og draga úr hæfi þeirra til að lifa af í náttúrunni. Villti laxinn á ekki séns andspænis þessu stöðuga álagi ár eftir ár.

Sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Í frétt RÚV segir:

“Í tilkynningu sem Matvælastofnun birti í morgun kemur fram að bráðabirgðaniðurstöður DNA-greiningar á 32 löxum sem Fiskistofa veiddi í Mjólká í Arnarfirði í ágúst sýni að 16 af þeim séu eldislaxar. Hinir laxarnir reyndust villtir en vísbendingar eru um að eldislaxarnir komi frá Haganesi í Arnarfirði. Þar kom gat á sjókví í ágúst 2021.

Karl Steinar Óskarsson, deildarstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun, segir að þótt bráðabirgðaniðurstöður sýni að eldislaxarnir komi frá Haganesi sé ekki hægt að staðfesta það fyrr en niðurstöður seinni DNA-rannsóknar berast, sem gæti tekið allt að tvær vikur. Þá sé verið að áætla hve margir eldislaxar hafi sloppið þegar gat kom á kvína fyrir ári. Málið hafi verið til rannsóknar hjá Matvælastofnun.

… Sjókvíin í Haganesi er í eigu Arnarlax. Gatið sem kom á nótarpoka kvíarinnar var á um tveggja metra dýpi og um það bil fjórir fermetrar að stærð. Um 120.000 laxar voru í kvínni.”