69 prósent Íslendinga telja að koma eigi fram á umbúðum eldislax hvort hann komi úr sjó­kvía­eldi eða landeldi. Þetta kemur fram í könnun sem Gallup gerði fyrir okkur í IWF, Laxinn lifir og NASF.

Eins og bent er á í fréttinni er stórmál fyrir okkur sem er umhugað um náttúruna og mannúðlega búskaparhætti að vita hvort eldislaxinn komi úr sjókvíaeldi eða landeldi.

Sjókvíaeldi er mengandi iðnaður sem skaðar villta laxastofna og á við meiri háttar dýravelferðarvanda að glíma. Í frétt Fréttablaðsins segir ma:

„Eldislaxinn á að stóru leyti ömurlega tíð í sjókvíunum. Um og yfir 20 prósent eldisdýranna þola ekki þá vist sem þeim er búin og drepast ýmist vegna lúsasmits eða vetrarsára. Þetta er óásættanleg aðferð við matvælaframleiðslu. Það er mikilvægt fyrir neytendur að geta sniðgengið þessa vöru og sent framleiðendum hennar þannig skýr skilaboð,“ segir Jón Kaldal, talsmaður IWF í samtali við Fréttablaðið.