Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun liggur skýrt fyrir að eldislaxarnir sluppu vegna þess hversu illa var staðið að verki hjá Arctic Fish. Um það er ekki einu sinni deilt.

Í lögum um fiskeldi kemur fram að það varði framkvæmdastjóra og stjórnarmenn rekstrarleyfishafa sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, séu sakir miklar. Til dæmis ef eldisfiskur sleppur úr fiskeldisstöð þar sem umbúnaði við fiskeldi hefur verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis þeirra sem framið hefur verið af ásetningi eða gáleysi.
Samt er lögreglan fyrir vestan að hætta rannsókn sinni.

Helgi Jensson lögreglustjórinn á Vestfjörðum er á furðulegum slóðum í sínum útskýringum. Í frétt RÚV er haft eftir honum að gögn málsins bera „ekki með sér að umbúnaður við kvínna hafi verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis sakbornings.“

Þó liggur fyrir að einmitt vegna athafna starfsmanna Arctic Fish rofnaði netapokinn í sjókvínni og þúsundir eldislaxa sluppu út. Einnig hefur verið upplýst um athafnaleysi við eftirlit með sjókvínni en fyrirtækið sinnti ekki neðansjávareftirliti með henni í rúma þrjá mánuði. Í þriðja lagi var tekin meðvituð ákvörðun um að laga ekki ljósastýringarbúnað í sjókvíunum, sem varð til þess að stór hluti eldislaxanna var kynþroska þegar hann slapp, sem ýtti undir að hann leitaði strax upp í ár til að taka þátt í hrygningu.

Það væri fróðlegt að sjá svör lögreglustjórans við því hvað hann telur að hafi orðið til þess að fiskarnir sluppu, ef það gerðist hvorki vegna athafna né athafnaleysis Arctic Fish.

Sú niðurstaða hans að fella niður rannsóknina bendir til þess að gáfulegra hefði verið að fela öðru lögreglustjóraembætti en heimamanna þessa rannsókn.

RÚV greinir frá:

Lögreglan á Vestfjörðum hefur hætt rannsókn á máli vegna slysasleppingar eldislax úr fiskeldisstöð í Kvígindisdal í Patreksfirði.

Rannsókn hófst með kæru Matvælastofnunnar, MAST, þann 13.september. Framkvæmdastjóra rekstrarleyfishafans, Arctic Fish, var gefin réttarstaða sakbornings.

Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, segir rannsókninni hætt þar sem ekki sé grundvöllur til að halda henni áfram. Hann segir gögn málsins ekki bera með sér að umbúnaður við kvína hafi verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis sakbornings.

Í samtali við fréttastofu segir Helgi að lagaumhverfið í málum sem þessum sé erfitt. Lögin séu meira leiðbeinandi um starfsemina fremur en refsilög. Því hafi verið útilokað að halda rannsókn áfram á starfseminni.


Í lögum númer nr. 71/2008 er fjallað um fiskeldi. Í 22. grein laganna kemur fram að það varði framkvæmdastjóra og stjórnarmenn rekstrarleyfishafa sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, séu sakir miklar.

Til dæmis ef eldisfiskur sleppur úr fiskeldisstöð þar sem umbúnaði við fiskeldi hefur verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis þeirra sem framið hefur verið af ásetningi eða gáleysi.