Veiran sem veldur blóðþorra hefur verið staðfest í Berufirði á tveimur eldissvæðum sem þýðir að öllum laxi verður slátrað og firðinum lokað fyrir sjókvíaeldi.

Það er rannsóknarefni hvernig veiran barst i fjörðinn. Þessi banvæna veira, sú versta sem getur komið upp í sjókvíaeldi, greindist í fyrsta skipti við Ísland í nóvember 2021, í sjókvíum Laxa fiskeldis í Reyðarfirði. Þar breiddist hún út með þeim afleiðingum að slátra þurfti öllum eldislaxi og loka firðinum. MAST mun væntanlega rannsaka og upplýsa röð atvika að baki þessum manngerðu hörmungum.

Ljóst er að sýktur eldislax var fluttur frá Reyðarfirði til slátrunar á Djúpavogi við Berufjörð, þar sem öllum sjókvíaeldislaxi á Austfjörðum er slátrað. Hvað skilyrði setti stofnunin fyrir þeim flutningi og slátrun? Fer þessi fiskur á neytendamarkað?

Það er mörgum spurningum ósvarað. Og fólkið sem heldur að þessi skelfilegi iðnaður sé framtíðaratvinnuvegur hlýtur að fara að hugsa sinn gang.

Í tilkynningu MAST segir:

Hið meinvirka afbrigði ISA-veirunnar hefur nú verið staðfest í sýnum sem tekin voru í laxeldisstöð við Hamraborg og Svarthamarsvík í Berufirði í síðustu viku. Aðgerðaráætlun hefur verið virkjuð og mun öllum laxi á eldissvæðunum verða slátrað.

Allt frá því að fyrsta greining ISA-veirunnar átti sér stað úr laxi í sjókví við Gripalda í Reyðarfirði í lok nóvember 2021 hefur ströng vöktun og umfangsmiklar sýnatökur átt sér stað á öðrum eldissvæðum á Austfjörðum. Eins og fram kom í frétt Matvælastofnunar 29. apríl sl., var greining á meinvirku afbrigði ISA-veirunnar staðfest á ný í einni kví við Sigmundarhús. Öllum laxi á þeirri staðsetningu var umsvifalaust fargað. Þann 22. maí sl. var sama afbrigði veirunnar einnig staðfest í laxi við Vattarnes í Reyðarfirði og eru framkvæmdir við slátrun hafnar. Í síðustu viku maí mánaðar vaknaði einnig grunsemd um tilveru veirunnar í laxi í Berufirði, fyrst við Hamraborg og nokkrum dögum síðar einnig við Svarthamarsvík. Lokaniðurstöður voru að berast frá rannsóknarstofu þar sem tilvist meinvirks afbrigðis veirunnar er staðfest. Við Hamraborg eru í eldi um 890.000 laxar í sjö sjókvíum (2-3,2 kg) og Við Svarthamarsvík eru í eldi um 1.099.000 laxar í tólf sjókvíum (0,3-1,4 kg).

Til að gæta fyllstu varúðar hefur Fiskeldi Austfjarða í samvinnu við Matvælastofnun nú þegar virkjað aðgerðaráætlun með tilliti til slátrunar og tæmingu allra kvía. Þar með mun allur Berufjörður tæmast fyrir laxi og fara í eldishvíld. Með þessari aðgerð skal gert hið ýtrasta til að uppræta og hreinsa fjörðinn fyrir ofangreindu veirusmiti.