„Að mati Matvælastofnunar var innra eftirliti ábótavant og ekki var farið að verklagsreglum sem félagið hafði sett sér við slátrun sem leiddi til umfangsmikils stroks á eldisfiski,” segir í frétt Vísis.

Þetta mat MAST er ekki skrítið í ljósi þess að starfsmenn Arctic Fish skildu fóðurvél eftir í sjókvínni þvert á verklagsreglur og sögðu síðar hana hafa gert götin, þeir sinntu ekki neðansjávareftirliti með sjókvínni í 95 daga en það átti að fara fram eigi sjaldnar en á 60 daga fresti, og löguðu ekki ljósastýringarbúnað svo mánuðum skipti en með lýsingu í sjókvíunum er reynt að koma í veg fyrir að eldislaxarnir verði kynþroska.

Þrátt fyrir öll þessi afglöp Arctic Fish og brot á reglum, komst lögreglustjórinn á Vestfjörðum að þeirri niðurstöðu að slepping þúsunda eldislaxa úr sjókví fyrtækisins mætti hvorki rekja til ásetnings né gáleysis forráðamanna þess.

Enn hefur lögreglustjórinn ekki útskýrt hvað hann telur hafa orsakað sleppinguna.

Það blasti við að málinu gat ekki lokið með þessari furðulegu ákvörðun hans.