Í framhaldi af því að við sögðum frá skýrslu norsku náttúrufræðistofnunarinnar, NINA, um svart ástand villtra laxastofna í Noregi, hófst lýsandi umræða í athugasemdakerfi þessarar síðu okkar á Facebook þar sem ýmsir núverandi og fyrrverandi innanbúðarmenn í sjókvíaeldisiðnaðinum stigu fram.

Í skýrslu NINA kemur fram að erfðablöndun við eldislax heldur áfram að aukast í villtum laxi í Noregi. Af 239 villtum laxastofnum bera 67% merki erfðablöndunar frá eldislaxi, sem hefur sloppið úr sjókvíum, og eru 37,5% stofna í slæmu eða mjög slæmu ásigkomulagi.

Á myndinni sem fylgir þessari færslu má sjá að ástandið er slæmt nánast allst staðar í Noregi. Rauðu punktarnir sýna mjög mikla erfðablöndun, appelsínugulu töluverða erðfablöndun og gulu merkjanlega erfðablöndun. Grænu punktarnir sýna enga merkjanlega erfðablöndun og eru miklu miklu færri.

Höfundar skýrslunnar eru meðal fremstu vísindamanna Noregs þegar kemur að erfðafræði laxins. Þar á meðal er Kevin Glover, einn þriggja fulltrúa í óháðri nefnd vísindamanna sem Kristján Þór Júlíusson skipaði á síðasta ári til að taka út aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar við gerð áhættumats vegna sjókvíaeldis hér við land.

Nefndin skilaði merkilegri skýrslu síðasta sumar, sem við höfum áður sagt frá.

Þar kemur meðal annars fram að gæta þurfi að því hvort rétt sé að nota norsk viðmiðunarmörk um erfðablöndun eldislax við villta stofna í íslenska áhættumatinu „í ljósi þess að eldislax sem alinn er á Íslandi er norskur að uppruna og þess vegna hugsanlega meiri ógn við innlenda stofna eftir innblöndun,“ eins og þar segir.

Þetta eru sem sagt orð vísindamanna, rétt eins og skýrsla NINA er fræðilegt rannsóknaplagg.

Víkur þá sögunni að framlagi núverandi og fyrrverandi innanbúðarmanna í sjókvíaeldisiðnaðinum í athugasemdakerfinu hjá okkur.

Nokkrir höfðu sig þar frammi, en til einföldunar tökum við sem dæmi athugasemd Kristjáns Davíðssonar, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva og núverandi stjórnandi eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins. Orð hans dekka vel afstöðu þessa hóps.

Eins og sjókvíaeldismanna er siður lætur hann sig ekki muna um að afneita vísindunum með öllu. Þau koma hér og þar fyrir neðan förum við í gegnum ummæli hans lið fyrir lið.

Kristján Davíðsson:

„Ef erfðablöndun væri hættuleg villtum stofnum væri skaðinn löngu skeður. Mjög margar ár eru með hlutfallslega mikið magn aðfluttra seiða yfir lengri tímabil undanfarna áratugi, sumar mjög hátt, td í Ísafjarðardjúpi. Vegna skiptingar í svæði er áhættan lítil sem engin. Náttúruvalið sér ágætlega um að hreinsa út húsdýr og aðkomulið, sem eru minna hæf og minna aðlöguð umhverfinu á staðnum, sbr. seiðasleppingar liðinna áratuga, sem skv. Veiðimálastofnun eru fá eða engin merki um.“

Svör IWF

Í fyrsta lagi var seiðaflutningum og sleppingum milli áa hætt á Íslandi fyrir nokkrum áratugum einmitt vegna þess að vísindin eru á þá leið að það atferli var hættuspil og líklegt til að hafa neikvæð áhrif á staðbundna stofna viðkomandi ár.

Í öðru lagi voru notuð á þeim tíma seiði villtra íslenskra laxastofna en ekki norskt húsdýr eins og eldislaxinn er. Samanburðurinn á þessu er álíka og að bera saman handsprengju og flugskeyti sem getur sökkt skipi.

Í þriðja lagi munu lekinn og sleppingarnar frá sjókvíunum standa árum saman, eða allan þann tíma sem kvíarnar eru í sjó. Sú stöðuga erfðamengun mun jafnt og þétt grafa undan heilbrigði og styrk villtu stofnanna og verða þeim að fjörtjóni á endanum.

Það er með nokkrum ólíkindum að þurfa að takast á við þessa lobbíista um raunveruleikann með þessum hætti.

Af hverju halda þeir að fremsta náttúruvísindafólk Noregs sé að vara við því að mesta manngerða hætta villtra laxastofna þar í landi sé skaðinn af sjókvíaeldi?