Milljón löxum dælt upp í sérútbúið skip frá Noregi og aflífaðir með rafmagni segir í þessari frétt RÚV.

Þetta er algjör hryllingur.

Eldislaxarnir eru svo illa farnir eftir laxalúsina, sárin svo djúp og alvarleg að það er ekki hægt annað en að aflífa þá.

Og enn á eftir að slátra upp úr fullt af kvíum.

Þjáningin hlýtur að vera ólýsanlega mikil í netapokunum. Lúsin étur fiskinn inn að höfuðkúpu.

Nú þarf að stöðva sjókvíaeldi strax. Þetta er ekki hægt.

Í umfjöllun RÚV segir:

Lúsaálag hefur verið óvenjumikið í sjókvíum á sunnanverðum Vestfjörðum að undanförnu. Matvælastofnun heimilaði fiskeldisfyrirtækjum fyrr í mánuðinum að nota lúsalyf þess vegna. Það er ekki nóg í sumum tilvikum. Lúsin er mjög streituvaldandi fyrir laxana og veldur sárum á roði. Svo mikið var um þetta í sumum kvíum í Tálknafirði að talið var að sárin gætu ekki gróið í vetur vegna lágs sjávarhita.

Í Tálknafirði eru tvö eldissvæði og 34 kvíar allt í allt. Og af þeim hefur verið ákveðið að farga úr tólf kvíum. Í upphafi mánaðar voru milljón fiskar í þessum tólf kvíum. Og í öllum firðinum voru þrjár og hálf milljón,“ segir Berglind Helga Bergsdóttir sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun.

Klárað var að farga úr sex kvíum í gær og byrjað er á hinum sex. Ekki er komið í ljós hve mörgum löxum verður fargað í allt þótt tölurnar í upphafi mánaðar hafi verið samtals ein milljón laxa. …