Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum höfum sent umsögn til Skipulagsstofnunar þar sem við mótmælum stækkunaráformum Arnarlax í Arnarfirði. Eitrað hefur verið fyrir laxalús með skordýraeitri eða lyfjafóðri á hverju einasta ári frá 2017 í Arnarfirði, síðast nú fyrir nokkrum dögum á tveimur svæðum í firðinum.

Sjókvíaeldi í Arnarfirði er þó enn aðeins helmingur af því sem fyrirtækin vilja fá heimild fyrir.

Lúsaplágan er dauðans alvara fyrir villta laxfiska, eins og Karl Steinar Óskarsson, séfræðingur Matvælastofnunar (MAST), kemur inn á í meðfylgjandi frétt RÚV: „Fram undan er viðkvæmur tími, þar sem að seiði laxfiska fer að ganga úr ám í sjó, þetta er aðallega gert til þess að koma í veg fyrir að sá fiskur verði fyrir of miklu álagi,“ segir Karl Steinar þegar hann úskýrir af hverju MAST hefur gefið heimild fyrir notkun skordýraeiturs í sjókvíunum, en laxalús drepur gönguseiði villta laxins í stórum stíl.

Eitrinu er hellt í opinn sjó sem veldur öðrum skaða á lífríkinu þar sem virknin gegn laxalúsinni felst í því að það leysir upp skel hennar, en líka skel marflóa, rækju, humarlifra og annarra villtra skeldýra í lífríkinu nálægt kvíunum.

Sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu. Illa er farið með eldisdýrin og lífríkið skaðað með óafturkræfum hætti.

RÚV fjallaði um lúsapláguna í Arnarfirði:

Íslenski náttúruverndarsjóðurinn hefur sent umsögn til Skipulagsstofnunar þar sem hann mótmælir stækkunaráformum laxeldisfyrirtækisins Arnarlax í Arnarfirði. Ítrekað hafi þurft að eitra fyrir laxalús með skordýraeitri eða lyfjafóðri, eða sautján sinnum á tímabilinu 2017 til 23, síðast í maí. Fiskisjúkdómanefnd Matvælastofnunar taldi þá nauðsynlegt að veita leyfi til að eitra fyrir laxalús í firðinum, en lúsin er sníkjudýr sem nærist á laxinum og getur valdið miklum skaða. Veitt var leyfi til að eitra á tveimur stöðum í Arnarfirði og í Patreksfirði. „Fram undan er viðkvæmur tími, þar sem að seiði laxfiska fer að ganga úr ám í sjó, þetta er aðallega gert til þess að koma í veg fyrir að sá fiskur verði fyrir of miklu álagi,“ segir Karl Steinar Óskarsson, deildarstjór fiskeldis hjá MAST.

Hann segir að fjöldi lúsa á þessum árstíma hafi komið á óvart. „Allir fræðimenn sem hafa rannsakað lús segja að hún geti ekki fjölgað sér ef hitastig sjávar er undir fjórum gráðum,“ segir Karl Steinar. Hitastig sjávar fyrir vestan hafi farið niður í 0,2 gráður í vetur.

Karl Steinar segir þörf á að rannsaka lúsina betur. „Og athuga hvort hún sé mögulega að venjast þessum kulda.“ …

Samkvæmt talningu Arnarlax eru að meðaltali 4,4 lýs á hverjum laxi, en viðmiðið sem þeir setja sér er 0,1 lús. Fjöldi lúsa var því 44 sinnum yfir mörkum. …

Rannsóknir Náttúrverndarstofnun Vesturlands sýna að mun meiri áhætta er af laxalús á villtum laxfiskum í fjörðum þar sem laxeldi er í sjó. Karl Steinar segir að lúsin geti fjölgað sér mjög hratt. „Lirfurnar sem hún framleiðir berast með hafstraumum og ef ekkert er að gert þá getur þetta dreifst töluvert, bæði í önnur eldissvæði og í sjó.“

Þá er ekki hættulaust fyrir lífríki sjávar að eitra fyrir lúsinni, eitrið getur drepið rækjur og haft mjög skaðleg áhrif á önnur krabbadýr. Karl Steinar segir að önnur ráð gegn lúsinni séu æskilegri. „Við viljum stíga mjög varlega til jarðar við notkun á þessum lyfjum, vegna þess að reynslan í Noregi sýnir að lúsin hefur möguleika á að mynda ónæmi gegn þeim, svo við viljum að öllum öðrum aðferðum sé beitt, áður en það kemur til lyfjameðferðar.“