Vestfirðir eru kyngimagnaður áfangastaður. Þeim fer hratt fækkandi landssvæðum á jörðinni sem eru ósnert af mannshöndinni. Afleiðingarnar eru meðal annars að óspillt náttúra verður verðmætari með hverju árinu. Aðdráttarafl slíkra staða verður þyngra og þyngra.

Val ferðabókaútgefandans Lonely Planet sem setti Vestfirði í efsta sæti á lista yfir svæði til að heimsækja á næsta ári eru góðar fréttir en koma ekkert á óvart. Við Íslendingar höfum lengi vitað af undrum Vestfjarða.

Þessum miklu verðmætum Vestfjarða stendur mikil ógn af áherslu örfárra harðra lobbíista sem vilja koma sjókvíaeldiskvíum með tilheyrandi fóðurprömmum og díselknúnum flóðlýsingum í sem flesta firði þar. Sjónræn áhrif þessara mannvirkja spilla ásýnd og friðsemd allra fjarða.

Í október í fyrra var skilað merkilegri MS ritgerð við Viðskiptadeild Háskóla Íslands: „Sjávarútvegsklasi Vestfjarða –

Tækifæri til nýsköpunar í fámennum og dreifðum byggðu“ en þar kemur fram að „rekja má 4% hagvaxtar á Vestfjörðum á tímabilinu frá 2012-2017 til fiskeldis og 16% hagvaxtar má rekja að hluta til ferðaþjónustu.“

Eftir bankahrunið 2008 var það náttúra Íslands og ferðaþjónustan sem lék lykilhlutverk í að rétta við efnahag landsins. Stóriðjuverkefnin sem áttu að bjarga okkur ollu hins vegar öll feikilegu tjóni og kostuðu sum hver lífeyrissjóði almennings og fjármálastofnanir stórfé þrátt fyrir jafnvel sérstaka meðgjöf úr ríkissjóði.

Þannig hlaupa afskriftir lífeyrissjóða vegna kísilvers United Silicon og kísilversins á Bakka á milljörðum króna. Og í Helguvík á Reykjanesi stendur beinagrind af kerskála álvers sem ekkert varð af og er mikilvægur minnsivarði um þessa gjaldþrota stefnu.

Við þurfum að passa Vestfirði. Það væri stórslys af þeim væri spillt til að gera örfáa útsendara mengandi sjókvíaeldisiðnaðar stórríka.

Sjá frétt Viðskiptablaðsins.