Auðvitað á að stöðva starfsemi þar sem öll umgjörð er í molum. Ályktun Landverndar er afdráttalaus:

Stjórn Landverndar hvetur Alþingi og ráðherra til að bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar og banna frekari vöxt á fiskeldi í sjókvíum þar til endurbótum á lögum og reglum er lokið og gerð hefur verið ítarleg úttekt á áhrifum þessarar starfsemi á lífríkið við strendur landsins. Ef niðurstaða rannsókna staðfestir víðtæk neikvæð umhverfisáhrif er sjálfgefið að fyrirliggjandi starfsleyfi verði ekki endurnýjuð þegar að því kemur.

Stjórn Landverndar fagnar því að Ríkisendurskoðun hefur framkvæmt úttekt á stjórnsýslu vegna sjókvíaeldis. Því miður staðfesti niðurstaða úttektarinnar það sem umhverfis- og náttúruverndarsamtök hafa ítrekað bent á undanfarin ár; umgjörð sjókvíaeldis við Íslandsstrendur hefur einkennst af veikburða og brotakenndri stjórnsýslu sem ekki var og er í stakk búin til að takast á við flókið verkefni og öflug hagsmunasamtök. Ríkisendurskoðun tilgreinir 23 aðgerðir sem fara þarf í til að stjórnsýsla og eftirlit standist eðlilegar kröfur. Engin ástæða er til að ætla að stjórnvöld geti komið á þessum umbótum á næstu misserum og það geti tekið nokkur ár. Stjórn Landverndar telur því afar varhugavert að halda áfram á sömu braut vaxtar í fiskeldi í opnum sjókvíum. Nú er tímabært að staldra við, meta stöðuna og áhrifin á náttúru og umhverfi og bæta lög og reglur og styrkja eftirlit. Landvernd hefur margoft komið þessum skilaboðum til stjórnvalda.

Um það er ekki deilt að fiskeldi í opnum sjókvíum getur valdið margvíslegum neikvæðum umhverfisáhrifum. Sífellt koma upp ný dæmi um það á Íslandi. Áhrifin eru bæði bein og óbein, þ.e. tengjast allri virðiskeðjunni frá öflun fóðurs, flutninga, notkunar eiturefna og lyfja og sleppinga á fiski sem geta haft áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika. Nú hefur Ríkisendurskoðun staðfest þá skoðun Landverndar að þekking á langtímaáhrifum við Ísland er takmörkuð og lög og reglur þróast ekki í sama takti og ör vöxtur greinarinnar. Óhætt er að fullyrða að núverandi fyrirkomulag og rekstur fiskeldis í opnum sjókvíum er langt frá því að uppfylla almenn skilyrði um „sjálfbærni“.

Óeðlileg tengsl stjórnmála og hagsmunaaðila í fiskeldi

Stjórn Landverndar telur að áhrif forsvarmanna greinarinnar á stjórnsýslu og stefnu í málafloknum sé meiri en eðlilegt getur talist í ríki sem kennir sig við lýðræðisleg vinnubrögð og jafnræði á meðal þegna landsins. Landvernd hefur undanfarin misseri ítrekað bent á dæmi um þetta og síðast við gerð strandskipulags við Vestfirði og Austfirði þar sem öll önnur nýting virðist víkja fyrir áformum fiskeldisfyrirtækja. Landvernd hefur einnig kvartað til Eftirlitsstofnunar EES-samningsins (ESA) vegna lagasetningar í þágu fiskeldisfyrirtækja í október 2018 sem stofnunin hefur tekið undir á afgerandi hátt en íslensk stjórnvöld ekki brugðist við þrátt fyrir að þrjú ár séu liðin síðan ESA lýsti afstöðu sinni.

Brot á starfsleyfum og slæleg viðbrögð eftirlitsstofnanna

Fiskeldisfyrirtæki hafa ítrekað verið uppvís af því að brjóta ákvæði starfsleyfa. Dæmi um þetta er notkun á hættulegu efni, koparoxíð. Þegar brot á starfsleyfi var upplýst brugðust stjórnvöld ekki við með refsingu. Nei þau breyttu starfsleyfinu fyrirtækinu í hag og náttúru og umhverfi í óhag, og í trássi við leiðbeiningar stofnunar sem býr yfir sérþekkingu á viðkomandi sviði. Ákvarðanir um styttri hvíldartíma, úr sex mánuðum í þrjá, þrátt fyrir viðvaranir sérfræðinga eru annað dæmi óeðlileg áhrif fiskeldisfyrirtækja og takmarkað getu stjórnvalda að standast áhlaup forsvarsmanna greinarinnar. Enn annað dæmi eru áform um breytingar á rekstrarleyfi til stækkunar eldissvæðis við Kvígindisdal í Patreksfirði. Þar er í raun um að ræða úthlutun á nýju eldissvæði án lagastoðar í grennd við Örlygshöfn, svæði sem er á náttúruminjaskrá.

Frekari vöxtur í sjókvíaeldi verði bannaður

Stjórn Landverndar hvetur Alþingi og  ráðherra til að bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar og banna frekari vöxt á fiskeldi í sjókvíum þar til endurbótum á lögum og reglum er lokið og gerð hefur verið ítarleg úttekt á áhrifum þessarar starfsemi á lífríkið við strendur landsins. Ef niðurstaða rannsókna staðfestir víðtæk neikvæð umhverfisáhrif er sjálfgefið að fyrirliggjandi starfsleyfi verði ekki endurnýjuð þegar að því kemur.