Í minnisblaði sem Hafrannsóknastofnun og Veðurstofa Íslands unnu fyrir Landsvirkjun í lok árs 2022 kemur fram að „ef svo færi að mótvægisaðgerðir virka alls ekki, og ekkert væri að gert, yrði ekki lax ofan stíflu Hvammsvirkjunar, stofn laxa ofan Búða myndi minnka um sem nemur 64% og heildarstofn laxa í Þjórsá myndi dragast saman um 31%.“

Þetta kemur fram í grein Snæbjörns Guðmundssonar, jarðfræðings og formanns Náttúrugriða þar sem hann fer yfir í hverju þessar meintu mótvægisaðgerðir eiga að felast. Sú tilraun er dæmd til að mistakst enda hafa sambærilegar aðgerðir hvergi í heiminum virkað og lífríkið alls staðar goldið grimmilega fyrir.

Landsvirkjun og stjórnvöld þurfa að svara fyrir af hverju eigendur þeirra álvera sem hér eru starfrækt komast upp með að hafa búnað þeirra svo slakan að raforkunotkun að baki hverju framleiddu kílói af áli er mun meiri en heimsmeðaltalið. Ef notkunin væri við meðaltalið þá myndi losna meiri orka en Hvammsvirkjun á að framleiða.

Með öðrum orðum, hægt er að spara gríðarlegan byggingarkostnað, ekki eyðileggja umhverfið og sleppa því ganga nánast af dauðum einhverjum stærsta einstaka stofni villtra laxa í Norður Atlantshafi.

(Heimurinn notar að meðaltali 14.1 KWh til að framleiða eitt kíló af áli en álverin hér nota 14.9. Íslenskur áliðnaður lítur svo enn verr út þegar hann er borinn saman við álver Norsk Hydro, sem nota 13,8 KWh til að framleiða eitt kíló af áli)

Í grein sinni sem birtist á Vísi segir Snæbjörn:

„Mannvirkjagerð hefur í flestum löndum sem liggja að Norður-Atlantshafi gengið að stofnum Atlantshafslaxins nánast dauðum. Stíflur og virkjanir hafa áhrif bæði á uppgöngu hrygnandi laxa úr sjó, sem og niðurgöngu seiða til sjávar, en þau þurfa að komast hratt og örugglega niður árnar. Allar hindranir á vegferð fisks upp eða niður skerða lífslíkur hans stórlega og jafnvel hreinar vatnsforðastíflur án virkjana eru mjög skaðlegar. Í Evrópu eru nú flest stórfljót margstífluð enda lífríki næstum alls staðar afar illa farið. Nýjar vatnsaflsvirkjanir eru hér um bil einvörðungu leyfðar þar sem stíflur hafa þegar verið reistar.

Þótt Landsvirkjun sé ekki þekkt fyrir að bera hag lífríkis landsins sérstaklega fyrir brjósti, hefur hún vegna mótstöðu heimafólks við Þjórsá neyðst til að hugleiða afdrif laxastofnsins í ánni. Eins og fram kemur í umhverfismati frá 2003 gerðu upprunalegar hugmyndir um virkjanir í neðri hluta Þjórsár ráð fyrir að laxaseiðum yrði einfaldlega dembt yfir stíflur á yfirfalli (!) en þær lögðust illa í vísindamenn og stjórnvöld. Um 2012 setti Landsvirkjun því fram „mótvægisaðgerð“: hugmynd um „seiðafleytu“ sem skyldi passa upp á að seiðin færu hratt og örugglega framhjá stíflum og út í farveg Þjórsár neðan þeirra (reyndar hálfþurran farveg, en það var ekki talið stórmál). Hófst þá hönnun þeirrar útfærslu.

Perlað
Til að kanna ætlaða hegðun laxaseiðanna og hvernig þau gætu komist niður um seiðafleytu virkjana í neðri Þjórsá smíðaði rannsóknarhópur Landsvirkjunar, með þátttöku verkfræðistofa og tveggja íslenskra háskóla stórt líkan af Urriðafossvirkjun í neðri hluta Þjórsár, með stíflum, inntaki og sérstakri seiðafleytu. Í þetta módel hellti svo hópurinn hrúgum af gulu „perli“, hinum sívinsælu litlu plastsívalningum sem leikskólabörn þekkja svo vel. Landsvirkjun og samrannsakendur gáfu sér sem sagt þá grunnforsendu við líkanagerð og útreikninga að laxaseiði höguðu sér líkt og perl. Ef lesendur trúa þessu ekki má skoða myndband Landsvirkjunar af „rannsókninni“ á hegðun laxaseiða við seiðafleytu Urriðafossvirkjunar hér: Straumfræðilegt líkan af Urriðafossvirkjun.

Hið augljósa vandamál við þessa nálgun er að laxaseiði eru ekki viljalausar fisléttar plastagnir fljótandi í tilgangsleysi á vatnsyfirborðinu, … Með öðrum orðum eru hugmyndir Landsvirkjunar um virkni seiðafleytunnar byggðar á óskhyggju, vonum um að hönnunarforsendur standist, og að seiðin láti einhvern veginn að stjórn og fari eftir leiðbeiningum. Já, ef þau nú bara halda sig við yfirborðið og haga sér eins og litla gula perlið í líkaninu fer allt vel.

Í minnisblaði sem Hafrannsóknunarstofnun og Veðurstofa Íslands unnu fyrir Landsvirkjun í lok árs 2022 kemur fram að „ef svo færi að mótvægisaðgerðir virka alls ekki, og ekkert væri að gert, yrði ekki lax ofan stíflu Hvammsvirkjunar, stofn laxa ofan Búða myndi minnka um sem nemur 64% og heildarstofn laxa í Þjórsá myndi dragast saman um 31%.“ Þetta er í samræmi við nýlegar greinar Elvars Arnar Friðrikssonar og Gísla Sigurðssonar um skelfileg áhrif áætlaðrar Hvammsvirkjunar á laxinn.

Út frá minnisblaði Hafró og Veðurstofunnar og þeirri staðreynd að Landsvirkjun hefur enga leið til að bregðast við ef perl hegða sér ekki eins og lifandi laxaseiði, er Hvammsvirkjun ekkert annað en glæfraspil með lífríki Þjórsár, tilraun dæmd til að mistakast með hörmulegum afleiðingum. Þriðjungur laxastofnsins í ánni allri gæti þurrkast út á einu bretti og hrun myndi blasa við stofninum án þess að nokkuð yrði að gert. Þetta er áhættan sem Landsvirkjun væri að taka með stærsta laxastofn Íslands ef hún fengi að reisa Hvammsvirkjun. Þetta taldi Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í Kveik að væri „mjög ábyrg nýting á auðlindum.““