Fróðlegt er að fylgjast með framgangi þessa metnaðarfulla landeldisverkefnis Samherja á Reykjanesi. Ekki síst að lesa sig gegnum athugasemdir ýmissa opinberra stofnana sem hafa eðlilega áhuga á hvernig skólphreinsun og frárennslismálum frá þessari risavöxnu starfsemi verður háttað.

Ástæðan er einföld. Við dýrahald fellur til mjög mikið skólp og bannað er að losa það óhreinsað í umhverfið þar með talið í sjóinn.

Eins stórfurðulega og það hljómar þá eiga lög og reglugerðir um fráveitur og skólp, og vernd hafs og stranda ekki við um sjókvíaeldi. Sú starfsemi fær með blessun löggjafans að losa allt það gríðarlega skólp sem verður til við framleiðsluna óhreinsað beint í hafið.

Þegar við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum sendum fyrirspurn til Umhverfisráðuneytisins um hvernig þetta gæti staðist, fengum við þau svör að „starfsemin færi fram í viðtakanum“ og því ættu lögin ekki við. Þau gilda bara um starfsemi sem fer fram á landi.

Með öðrum orðum. Á landi þurfa fyrirtæki eðlilega að kosta til fjármunum við hreinsunarbúnað en sjókvíaeldisfyrirtækin láta umhverfið og lífríkið niðurgreiða sína starfsemi og axla reikninginn fyrir menguninni.

Hverjum datt í huga að hafa þetta kerfi svona?