Fyrstu sex mánuði ársins drápust um 1.350.000 eldislaxar í sjókvíum við Ísland. Það er sautján sinnum meira en allur íslenski villti laxastofninn.

Að jafnaði drepst langmest af laxi í netapokunum fyrstu þrjá og köldustu mánuði ársins vegna vetrarsára og kulda. Síðasti vetur var óvenju mildur en samt stráféll laxinn. Nú ollu þörungar í júní hins vegar enn hræðilegra ástandi í sjókvíunum en vetrarkuldinn.

Eldisdýrin eru berskjölduð fyrir þessum aðstæðum í netapokunun. Það er ekki hægt að koma þeim til bjargar.

Sjókvíaeldi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Sbr. umfjöllun Fréttablaðsins:

„Hægt er að reikna út frá upplýsingum í mælaborði MAST að 1.350.000 eldislaxar hafa drepist í sjókvíum á fyrri helmingi ársins. Sérstaka athygli vekur að af þeim drápust 400 þúsund laxar í kvíunum í júnímánuði einum saman. Voru það 2,52 prósent af laxi í kvíum fyrirtækjanna í júní. Sem hlutfall af laxi í kvíunum drápust þrefalt fleiri laxar í júní á þessu ári en í fyrra.

„Það er engin ein skýring á þessu heldur er þetta sitt lítið af hverju,“ segir Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma hjá MAST, um orsakir laxadauðans.

Laxeldi hefur vaxið afar hratt hér undanfarin ár. Framleiðslan á árinu 2020 var um það bil tífalt meiri en aðeins fimm árum áður, eða 34.341 tonn á móti 3.260 árið 2015. Gísli segir viðbúið að afföllin aukist með aukinni framleiðslu.

Afföll í sjókvíunum eru yfirleitt mun meiri á fyrstu þremur mánuðum ársins sem eru þeir köldustu heldur en að sumarlagi. Í janúar í ár voru afföllin 0,7 prósent, 2,06 prósent í febrúar og 1,3 prósent í mars.“