Við hjá IWF höfum kært Matvælastofnun (MAST) til úrskurðarnefndar upplýsingamála og krafist þess að nefndin hlutist til um að MAST birti upplýsingar um eftirlit með sjókvíaeldisfyrirtækjum í samræmi við lög og reglur.

Þegar Alþingi samþykkti breytt lög um fiskeldi 2019 var sérstakur kafli í greinargerð með frumvarpinu um bætt eftirlit og upplýsingaskyldu opinberra stofnana um sjókvíaeldisiðnaðinn. Þar stóð:

„Frumvarpinu er einnig ætlað að leggja grunn að öflugu og skilvirku eftirliti með fiskeldi. Jafnframt er í samfélaginu gerð krafa um aukna upplýsingagjöf og betra aðgengi almennings að upplýsingum sem tengjast fiskeldi. Frumvarpinu er ætlað að mæta þessum kröfum.“

Við þetta hefur ekki verið staðið.

Sjá frétt Vísis:

„Meðal þeirra upplýsinga sem IWF hefur óskað eftir eru skýrslur með lýsingu á því sem fram kom í nýjustu eftirlitsheimsóknum MAST til þeirra fyrirtækja sem stunda sjókvíaeldi hér við land og hvort starfsemin sé í samræmi við rekstrarleyfisskilyrði, en samkvæmt reglugerðinni skal Matvælastofnun „leitast við að birta ofangreint innan tveggja mánaða frá eftirlitsheimsókn.“

Og niðurstöðum vöktunar á viðkomu sníkjudýra og MAST skal birta innan tuttugu daga eftir skil frá sjókvíaeldisfyrirtækjunum samkvæmt reglugerðinni.

Jón bendir á að í greinargerð sem fylgdi með drögum að frumvarpinu um breytingar á lagaákvæðum um fiskeldi, og var samþykkt á Alþingi í júní 2019, var sérstakur kafli um bætt eftirlit og upplýsingaskyldu opinberra stofnana um sjókvíaeldisiðnaðinn. Þar kemur fram að því sé ætlað að ætlað að leggja grunn að öflugu og skilvirku eftirliti með fiskeldi. Og krafa gerð um aukna upplýsingagjöf og betra aðgengi almennings að upplýsingum sem tengjast fiskeldi.

Jón segir að MAST hafi þessi fyrirmæli að engu. „Þetta ástand er í raun lýsandi fyrir óásættanleg lausatök opinberra stofnana með þessum mengandi iðnaði sem skaðar umhverfið og lífríkið.“