Bandaríski umhverfisverndarsinninn Yvon Chouinard er með mikilvæg skilaboð til þjóðarinnar.

“Íslendingar hafa tækifæri til að gera það rétta í fiskeldismálum en þeir eru ekki að því núna.” Chouinard er eigandi útivistarvörufyrirtækisins Patagonia, sem var áratugum á undan öðrum fyrirtækjum í sjálfbærri nálgun við hönnun og framleiðslu. Fyrirtækið hefur líka lengi stutt við bakið á grasrótarhópum og náttúruverndarsamtökum um allan heim í baráttunni gegn skemmdum á umhverfinu og lífríkinu.

Chouinard var meðal þekktustu fjallamanna heims á sínum yngri árum og er enn ástríðufullur útivistarmaður.

Í viðtal Fréttablaðsins segir hann m.a:

„Kvíarnar nota eitthvað af fiskimjöli, sem er gert úr smáfiskum. Þær fá þessa smáfiska úr hafinu og taka þannig fæði frá villtum fiskum. Þess vegna hafa fiskistofnarnir á vesturmiðum Bandaríkjanna og Kanada hrunið. Svo eru þessir smærri og veikari kvía­fiskar að fjölga sér með villifiskum og útþynna genamengið.

Ef maður trúir á þróunarferli og náttúruval, þá erum við að snúa því við. Meðalstór kanadískur kóngalax var 30 til 50 pund en er núna bara tólf pund.

Ég er svartsýnn á að okkur takist nokkurn tímann að bjarga þessari plánetu,“ segir Chouinard. „En hafandi stundað áhættuíþróttir og oft lent í lífshættu hef ég eiginlega sætt mig við dauðann. Öll fyrirtæki leggja upp laupana og öll heimsveldi hrynja að lokum. Ég held að maður verði bara að sætta sig við að við munum ekki bjarga ísbjörnunum. Þá þyrftum við að bjarga öllu loftslaginu. Ég held að ef ungt fólk vinnur að raunverulegum lausnum á orsökum frekar en einkennum á göllum samfélagsins geti það lifað jákvæðu lífi.”