Löggjöf og eftirlit með sjókvíaeldi verður að endurskoða í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist, segir prófessor í umhverfisrétti. Spegillinn fjallaði um alvarlegar brotalamir í löggjöf um fiskeldi, og þá staðreynd að skuldbindingar okkar í alþjóðasamningum um að vernda líffræðilega fjölbreytni, eru einfaldlega munaðarlausar í stjórnsýslunni.

Anna Kristín Jósndóttir ræddi við Aðalheiður Jóhannsdóttur í Speglinum.

Á morgun kynnir Matvælaráðherra drög að nýrri stefnumótun í lagareldi. Leggja á línurnar til 2040, og líka fara yfir aðgerðir næstu 5 árin til 2028. Lagareldi vísar til sjókvía-, land-, þörunga- og úthafseldis, segir á vef ráðuneytisins. Allt er semsagt undir. Undanfarnar vikur og misseri, hefur samt hvað mestur hiti verið í umræðu um laxeldi, og þá helst sjókvíaeldið. Vöxturinn í laxeldi hefur verið feykilegur, og rauk upp fyrir tæplega 10 árum.

Fram til 2015 var framleiðslan undir 5,000 tonnum, að mestu, tók kipp upp fyrir 5,000 tonnin 2005, dróst svo saman samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni, en rýkur svo aftur upp, og er kominn 45,000 tonn árið 2020.

Norskir kafarar veiddu tugi eldislaxa í Hrútafjarðará um helgina. Þeir eru farnir á sínar heimaslóðir, og teknir til við að kemba norskar ár í leit að strokulöxum. Fjöldi slíkra laxa veiddist í ám á haustinu og síðsumars, frá því að gat kom á eldiskví í Patreksfirði. Helst hefur strokulaxanna orðið vart á Norvesturhorninu, en eldislax hefur fundist austur í Fnjóská, og líka suður í Hólsá, sem er hluti af Ytri Rángar vatnasvæðinu á Suðurlandi.

Það er ekki vitað hve margir fiskar sluppu út í Patreksfjörð, en það gæti hlaupið á þúsundum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slysaslepping verður úr sjókvíum. Aðaláhyggjuefnið er erfðablöndun við laxinn sem fyrir er í ánum. Hafrannsóknastofnun telur þörf á að endurskoða áhættumat erfðablöndunar í ljósi þess hversu mikið af kynþroska laxi hefur sloppið úr kvíum í árnar.

Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfisrétti segir að viðvörunarljós hafi fyrir löngu kviknað í nágrannalöndum okkar og hér heima. Rannsóknir sýna að laxastofninum í Norður Atlantshafi hnigni, jafnt og þétt. Fyrir því séu nokkrar ástæður, en sú veigamesta sé eldi í opnum sjókvíum, og íslenskum stjórnvöldum beri skylda til að verja stofninn hér, ekki síst út frá skuldbindingum sem þau hafi undirgengist til að vernda líffræðilega fjölbreytni.

„En við höfum skuldbundið okkur, meðal annars er að finna almennt ákvæði í 67. grein Hafréttarsamningsins, þar sem eru lagðar ákveðnar skyldur á ríkin þar sem árnar eru, og laxinn gengur upp í. Orðalag ákvæðisins er kannski frekar gamaldags, enda er það frá 1982, þannig að það kemur ekki skýrt fram í ákvæðinu að ástæðan sé til þess að vernda líffræðilega fjölbreytni eða heilbrigð vistkerfi. Aðalatriðið í ákvæðinu er, og var, og það er aðeins öðru vísi umhverfisástand þá þegar ákvæðið var stílað, það var að ná tökum á laxveiði í sjó. Og það má segja að það hafi tekist ágætlega, þannig að það er lögð skylda á ríkin að setja reglur um það. Það hefur verið gert á Íslandi, og laxveiðar í sjó eru bannaðar, og ef þú veiðir óvart lax í sjó, ber þér að sleppa honum.

En það er annað sem er þarna líka, að ákvæðið kveður í raun á um það, að ríkin þar sem þessar ár eru, það eru ríkin beggja vegna Atlantsála, vinni saman. Sú aðferð sem oftast er notuð í alþjóðlegum umhverfisrétti, þegar þarf að ná tökum á einhverju sem er alþjóðlegt umhverfisvandamál þá verða ríkin að vinna saman, og það hafa ríkin gert í norðurhluta Atlantshafs, og árið 1982 var skrifað undir samning í Reykjavík um vernd laxa í Norður Atlantshafi, og hann gekk í gildi ári síðar, eða 1983. Þessi samningur endurtekur þessar meginskyldur sem eru í Hafréttarsamningnum, það er þessi áhersla á að banna laxveiðar í sjó, en síðan gengur hann lengra, vegna þess að það er sérstök nefnd, sem var stofnuð með samningnum, NASCO [North Atlantic Salmon Conservation Organization] sem hefur það hlutverk að vinna að vernd og skynsamlegri stjórnun laxastofna á grundvelli bestu vísindalegra upplýsinga, og þar eru stundaðar rannsóknir upplýsingum er safnað, ríkjunum ber að gera skýrslu um stöðu laxastofna í ám og innan þeirra lögsögu, og svo framvegis.

Það sorglega er bara að Ísland sagði sig frá þessum samningi árið 2009, og ástæðan sem var gefin upp voru efnahagslegar þrengingar vegna hrunsins. Ég get svosem ekkert alveg metið það hvort að myndi breyta einhverju um þau aðvörunarljós sem hafa núna kviknað á Íslandi hvort að staðan væri eitthvað öðruvísi ef Ísland hefði haldið áfram þessari samvinnu, en aðalatriðið hérna er að það að þurfa að vera stöðugt að meta stöðuna og gefa skýrslu til alþjóðlegrar stofnunar, það veitir ákveðið aðhald. En núna höfum við ekki lengur þessa skyldu gagnvart þessum samningi.“

Ísland, líkt og flest ríki heims, er aðili að alþjóðasamningi um líffræðilega fjölbreytni, vernd tegunda og genafjölbreytileika. Markmið hans er ekkert sérstaklega að vernda lax, segir Aðalheiður, en laxinn fellur engu að síður undir samninginn. Og í honum felst líka skylda til að gefa skýrslur um stöðu tegunda sem skal verja.

„Í þeim samningi sem hefur allt aðra nálgun en til dæmis Hafréttarsamningurinn, þá er engin spurning um það að á okkur hvlílir þessi skylda, og ef líffræðilegur fjölbreytileiki er í hætti hjá laxinum hér, vegna fiskeldis, þá ber okkur skylda til að grípa til ráðstafana til að snúa því ástandi við og líka ef að það koma inn tegundir, framandi tegundir.“

Aðalheiður segir langt síðan aðvörunarljós kviknuðu um sjókvíaeldið og við hættunum hefur verið varað. Áhættumatið sé tilraun til að bregðast við, þó það hafi kannski komið seint fram á sjónarsviðið. Hún bendir líka á að laxeldið hafi farið hægt af stað, en nánast komið í það veldisvöxtur 2015.

„Það sem er svo athyglisvert í löggjöfinni, það er að verndun líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi, þar með talinn líffræðileg fjölbreytni laxfiska, er á verksviði Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Það ráðuneyti hefur hins vegar ekkert um þetta að segja í raun og veru.

Nema að einu leyti sem ég ætla að koma að: Það þarf tvö leyfi til að stunda fiskeldi, en annað þeirra er leyfi sem er gefið út af Umhverfisstofnun, og það er í raun bara mengunarvarnarleyfi. En hitt leyfið, sem þarf til að geta rekið fiskeldi, og öll sú lagaumgjörð, það er á verksviði Matvælaráðuneytisins. Það er Matvælastofnun, annars vegar og síðan eru aðrar stofnanir sem sjá um þetta. Og þar er þetta verkefni ekki nálgast sem verkefni á sviði líffræðilegrar fjölbreytni, heldur er þar verið að gefa rekstrarleyfi, enda er Matvælaráðuneytið og stofnanirnar sem tilheyra því ekki ábyrgar fyrir líffræðilegri fjölbreytni. Það er Umhverfisráðuneytið hins vegar, en leyfið sem er gefið út þar sem er þá starfsleyfi, hitt eru rekstrarleyfi, það er mengunarvarnarleyfi, þannig að ég bara þori að fullyrða að líffræðileg fjölbreytni, þegar kemur að þessari tilteknu tegund, hún er bara munaðarlaus.“

Og þetta sé ekki nógu þétt. Þó bendir hún á að undir Umhverfisstofnun falli merkileg löggjöf um umhverfisábyrgð, en það skorti vitneskju um hana, og í þeim lögum felist að ef leyfisskyld starfsemi valdi verndaðri tegund tjóni, og villti laxinn sé vernduð tegund, þá séu víðtækari úrræði sem grípa megi til og leggja skyldur á rekstraraðila.

„En þá bara lendum við í stjórnsýslunni, og þessi lög tilheyra Umhverfisstofnun, og jafnvel þó Umhverfisráðuneytið beri ábyrgð á líffræðilegum fjölbreytileika, þá er eins og ég sagði áðan, þessi tvö leyfi; annað er rekstrarleyfið og hitt er mengunarvarnarleyfið, en rekstrarleyfið fellur ekki undir umhverfisstofnun, en þessi lög gleymast oft í umræðunni, en mér finnst að það sé kannski komið að þeim tímapunkti, því aðvörunarljósin eru allstaðar, þau eru líka allstaðar í kringum okkur, að það þurfi kannski enn einu sinni að skoða löggjöfina og alveg sérstaklega löggjöfina um fiskeldi, og þá þætti sem varða eftirlit með þeirri starfsemi, því eftirlitið er greinilega ekki í lagi.“