Mjög athyglisverður flötur kemur fram í þessari frétt RÚV. Íbúar á Seyðisfirði benda á að Fiskeldi Austfjarða eigi ekki að komast upp með að fjölga áformuðum eldisvæðum í miðju ferli umhverfismats en láta samt eins og þetta sé gömul umsókn og núgildandi lög gildi því ekki. Enginn vafi er á því að ósamræmi er milli tilkynntra áforma á sínum tíma og svo þess sem fram kemur síðan fram í frummatsskýrslu.

Þetta mál er ákveðin prófraun á hvort meðvirkni stjórnsýslunnar með þessum mengandi iðnaði sé takmarkalaus. Sá undirlægjuháttur teygir sig víða og hefur birst með fjölbreyttum hætti.

Skv. RÚV:

„Félagið Vá, félag um verndun fjarðar, var stofnað í upphafi árs. Markmið þess er að „frelsa Seyðisfjörð frá fiskeldi í opnum sjókvíum” eins og það er orðað. Sem kunnugt er lætur Fiskeldi Austfjarða nú meta umhverfisáhrif af 10 þúsund tonna eldi í firðinum. Sigfinnur Mikaelsson stjórnarmaður í Vá félagi um verndun fjarðar segir andstæðinga eldisins mjög ósátta við að heimastjórn og sveitarstjórn skuli ekki leggjast gegn eldi sem meiri hluti bæjarbúa er mótfallinn…

Margir Seyðfirðingar eru ósáttir við að eldið þurfi ekki að lúta nýju skipulagi haf- og strandsvæða sem er í vinnslu. Fiskeldi Austfjarða hóf umsóknarferli áður en lög um það skipulag komu til 2018. Sigfinnur segir lögfræðing samtakanna draga í efa að eldið sé undanþegið lögunum. Þá sé eldið innan hafnarsvæðis og skipulagsvaldið því hjá sveitarfélaginu. Þar að auki hafi áformin verið í mótun og breyst eftir að umsóknarferlið hófst. Fiskeldi Austfjarða sé að reyna að stytta sér leið með því að hefja ekki nýtt ferli þegar áformuðum eldisvæðum fjölgar. „Þá eru þeir árið 2016 bara með umsókn fyrir tvö af þessum fjórum svæðum sem þeir erum með í frummatsskýrslunni. Þá eru komin fjögur eldisvæði en hefur ekki verið fjallað um nema tvö þeirra hjá Skipulagsstofnun. Þeir þurfa þá bara að byrja upp á nýtt ef þeir ætla að halda því til streitu að vera með eldi hérna í Seyðisfirði,“ segir Sigfinnur.“