Við vekjum athygli á viðburði sem BIODICE stendur fyrir í Safnahúsinu við Hverfisgötu fimmtudaginn 23. febrúar milli klukkan 14 og 16. Þar verður starfsemin kynnt með áherslu á nýlegt COP15 samkomulag Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og þýðingu þess fyrir Ísland.

„Aðstæður á Íslandi eru að mörgu leyti sérstæðar. Hér eru fáar tegundir vegna einangrunar landsins og þess að lífverur hafa haft skamman tíma til að nema landið að nýju frá því að síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum. Lítil samkeppni milli tegunda og æxlunarleg einangrun hefur leitt til aðlögunar að sérstæðum búsvæðum sem jarðfræði landsins skapar í samspili við aðra umhverfisþætti. Þetta birtist meðal annars í þróun afbrigða ýmissa tegunda, t.d. fugla, breytileika milli stofna laxa sem hafa aðlagast aðstæðum í mismunandi ám og hraðri þróun fjölbreytni innan stofna ýmissa tegunda svo sem bleikju í stöðuvötnum. Vistkerfi lands, ferskvatns og sjávar eru þannig mjög fjölbreytt og kvik. Í þessu liggja mikilsverð verðmæti íslenskrar náttúru,“ segir í grein stjórnarmeðlima BIODICE sem birtist á Vísi.

Sjókvíaeldi á laxi vegur með beinum hætti að villtum laxastofnum Íslands með erfðablöndun eldislaxins (sem er húsdýr) við stofnana sem hafa aðlagast hér aðstæðum á þeim tíu þúsund árum frá því síðasta jökulskeiði lauk.