Þrátt fyrir svarta skýrslu Ríkisendurskoðunar um vinnubrögðin við umgjörð sjókvíaeldisins heldur fúskið áfram hjá hinu opinbera. Nú er röðin komin að innviðaráðherra sem staðfesti í vikunni strandsvæðaskipulag sem var klæðskerasniðið fyrir sjókvíaeldið þvert á siglingalög, vitalög, lög um náttúruminjar og fjarskiptalög.

Við hvetjum ykkur til að lesa grein Benediktu frá Seyðisfirði. Þessu máli er ekki lokið.

„Við gerð skipulagsins boðaði svæðisráð til fundar á Seyðisfirði og í Reykjavík til að kynna tillögur sínar. Það voru einkennilegir fundir. Íbúar mótmæltu harðlega og bentu svæðisráði á alls kyns rangfærslur tillögunni. Í Reykjavík voru fulltrúar Samgöngustofu og Vegagerðarinnar á staðnum sem og hlýtur að hafa brugðið mjög við að sjá að í fyrirliggjandi leyfum, og þeim sem eru í ferli, væri ýmist ruðst inná siglingaleið eða í hvíta ljósgeira vita. Eftir þessa, að því er virtist óvæntu uppgötvun bárust 28 athugasemdir frá þeim. En þá var nú aldeilis djöflast í þeim, öllum hindrunum skyldi rutt úr vegi. Sömu stofnanir og sama fólk var sett í að gera tillögu um mótvægisaðgerðir til að þynna út eigin athugasemdir. Þær reyndust auðvitað hraðsoðnar og illa unnar enda sannfæringin um ágæti þeirra greinilega ekki fyrir hendi.

Sigurður Ingi sagðist ítrekað ekki vera í leyfisveitingum fyrir fiskeldi – sem er frekar innantómt svar þegar skipulagið leggur grunn að leyfisveitingum fyrir framkvæmdum og annarri starfsemi á því svæði sem skipulagið tekur til.

Að að þetta strandsvæðaskipulag hafi verið samþykkt er enn einn áfellisdómurinn yfir þessarri blessuðu stjórnsýslu – skipulagið er meingallað plagg þar sem fögrum orðum er farið um samráð af ýmsum toga sem átti sér því miður aldrei stað. Það er unnið fyrir einn hagsmunaðila og það eru fiskeldisfyrirtækin undir sterkri hagsmunagæslu SFS.

Gerði Svæðiráð eitthvað við upplifun sína af mótmælum íbúa/almennings? Var kallað eftir óháðri skoðanakönnun? Var talað við landeigendur? Eigendur í Skálanesi? NEI – það var ekki gert.

Með þessu skipulagi færði Sigurður Ingi okkur, í slagtogi með félögum okkar í nýsameinaða sveitarfélaginu Múlaþingi, einu skrefi nær hræðilegum og óafturkræfum raunveruleika. Múlaþing virðist ekki ætla að gera neitt við niðurstöðu íbúakönnunarinnar og ætla þá þannig að taka þátt í því að troðið verði uppá lítið samfélag iðnaði sem íbúar telja ógna annarri atvinnuuppbyggingu sem staðið hefur yfir um árabil.“