Mikið er það ótraustvekjandi hjá Gauta Jóhannessyni forseta sveitarstjórnar Múlaþingis að svara ekki einfaldri spurningu sem fyrir hann er lögð. Auðvitað á fólk rétt á að vita hvort það geti verið að hann sé að reka hagsmuni komandi vinnuveitanda í sveitarstjórninni.

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, íbúi á Seyðisfirði, sem berst gegn fyrirætlunum um sjókvíaeldi í Seyðisfirði spurði Gauta þessarar spurningar í grein á Vísi 11 mars. Benedikta rifjaði þar upp nokkur vestfirsk dæmi um sveitastjórnarmenn sem hafa ráðið sig í vinnu hjá laxeldisfyrirtækja.

Daníel Jakobssson, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði, sem starfar bæði sem oddviti og háttsettur stjórnandi hjá laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish sem er eitt dæmi. Benedikta spurði Gauta hvort hann ætlaði sér að feta þá sömu braut. Gauti fer undan í flæmingi.

Skv. frétt Stundarinnar:

„Ég kaus bara að svara því ekki. […] Ég svara því ekki. Það kemur mér og mínum nánustu við hvað ég er að fara að gera. Þeim er fullkunngt um það hvað ég er að fara að gera þegar ég er búinn í sveitarstjórn,“ segir Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og forseti sveitarstjórnar Múlaþings á Austurlandi, aðspurður um hvort hann ætli sér að fara að vinna fyrir laxeldisfyrirtæki í fjórðungnum þegar hann hættir í sveitastjórnarpólitík nú í vor. Gauti hefur gefið það út að hann ætli ekki  að bjóða sig fram aftur í kosningunum. …

Aðspurður segir Gauti að hann telji það ekki skipta máli þegar hann kemur fram opinberlega sem kjörinn fulltrúi og talsmaður kjósenda í sínu sveitarfélagi hvort hann sé að fara að starfa hjá laxeldisfyrirtæki, eins og til dæmis Laxeldi Austfjarða. 

Gauti: „Þetta er svar mitt. Ég svara þessu ekki.“

Blaðamaður: „En finnst þér ekki réttmætt að íbúar og kjósendur í kjördæminu fái að vita hvað þú ert að fara að gera þar sem þú ert ennþá kjörinn fulltrúi og kemur fram sem slíkur?

Gauti: „Nei, guð minn góður, það finnst mér ekki. Ef ég hætti við að gefa kost á mér í sveitarstjórn að allir eigi rétt á að vita hvað ég er að fara að gera.“

Blaðamaður: „En þú varst til dæmis í viðtali í gær síðast, þar sem meðal annars var rætt um laxeldi?“

Gauti: „Já, já ég er ekki að skorast undan því að ræða laxeldi. En mín prívatmál, hvað ég ætla að gera þegar ég hætti í sveitarstjórn, er bara eitthvað sem ég ætla að hafa fyrir mig.““