Fréttablaðinu í dag fylgir sérblað um matvælaiðnaðinn á Íslandi og þar er grein frá okkur í IWF um af hverju sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Þar kemur meðal annars fram að um helmingur allra eldislaxa í sjókví er að jafnaði vanskapaður, heyrnalaus eða nær ekki fullum þroska vegna þeirra aðstæðna sem eldislax þarf að lifa við þau tvö ár sem hann er hafður í sjó. Dýravelferðarvandi sjókvíaeldisiðnaðarins er af slíkum skala að ræktendur spendýra og alifugla kæmust aldrei upp með álíka starfshætti.

Sjókvíaeldi hefur líka í för með sér dauða alls kyns dýra utan sjókvíanna. Sníkjudýr og sjúkdómar streyma óhindrað út úr netapokunum með ömurlegum afleiðingum.

Myndin í greininni er af vansköpuðum eldislaxi í sjókví í Berufirði og var tekin af Óskari Páli Sveinssyni.