Hér er hlekkur á greinina sem birtist frá okkur hjá IWF í sérblaði Fréttablaðsins um matvælaiðnaðinn á Íslandi. Þar förum við yfir af hverju sjókvíaeldi á laxi er ekki boðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Í greininni segir m.a.:

„Sjókvíaeldi á fiski er eina dýrapróteinframleiðslan á iðnaðarskala sem skaðar villta stofna með erfðablöndun og mögulegum, óafturkræfum afleiðingum. Ástæðan er einföld. Ólíkt búdýrahaldi á landi byggist eldi í sjó á villtum dýrategundum en ekki húsdýrum sem hafa verið með mannkyni í aldir eða árþúsund. Þessum fisktegundum hefur verið breytt á síðustu áratugum með því sem ræktendur kalla kynbætur. Eldislax vex til dæmis miklu hraðar og verður þyngri en villtur lax. Þeir eiginleikar gefa af sér meiri hagnað fyrir eigendur sjókvíaeldisfyrirtækjanna en eru hins vegar verulega hættulegir villtum stofnum sem hafa aðlagast umhverfi sínu og aðstæðum með mörg þúsund ára náttúruvali. Að fá DNA úr eldisdýri getur kollvarpað þeirri þróunarsögu.

Aðbúnaður í eldi í sjó hentar svo þessum „kynbættu“ framleiðsluvænu villtu tegundum afar mismunandi. Sumum mun verr en öðrum, sem birtist í mikilli vanlíðan og háu dauðahlutfalli eldisdýra.

Þetta á til dæmis við um lax, sem drepst í stórum stíl í sjókvíum því hann þolir illa aðbúnaðinn þar. Að jafnaði er um helmingur allra eldislaxa í sjókví vanskapaður, heyrnarlaus eða nær ekki fullum þroska vegna þeirra aðstæðna sem eldislax þarf að lifa við þau tvö ár sem hann er hafður í sjó.

Dýravelferðarvandi sjókvíaeldisiðnaðarins er á slíkum skala að ræktendur spendýra og alifugla kæmust aldrei upp með álíka starfshætti.“