Síðastliðið haust varð vendipunktur í umræðu um sjókvíeldi á heimsvísu. Mögulega áttuðu sig ekki allir á því á þeim tímapunkti, en þessi kaflaskil eru að verða skýrari og skýrari þegar horft er um öxl.

Fram að þessum vatnaskilum hafði sjókvíaeldisfyrirtækjunum tekist að leiða hjá sér gagnrýni á hrikalegan dýravelferðarvanda iðnaðarins. Þeir dagar eru nú kyrfilega að baki. Röð afhjúpandi frétta af því hvernig þessi fyrirtæki fara með eldisdýrin gjörbreytti stöðunni.

Þar léku ekki síst stórt hlutverk skelfileg vídeó sem Veiga Grétarsdóttir Sulebust náði af lúsarmartröðinni sem Arctic Fish og Arnarlax báru ábyrgð á fyrir vestan. Fyrirtækin þurftu að fjarlæga og farga um tveimur milljónum eldislaxa sem voru svo illa skaðaðir af lús að engin leið var að bjarga þeim.

Þessi myndbönd fóru í birtingu í fjölmiðlum um allan heim og vöktu alls staðar hrylling.

Sjókvíeldislax er alinn í kvíunum í um tvö ár áður en honum er slátrað. Í rekstraráætlunum fyrirtækjanna er gert ráð fyrir að 20 prósent eldisdýranna drepist á ári. Það þýðir að þau gera ráð fyrir að 36 prósent lifi ekki af eldislotuna. Þessi skelfilega tala hefur reyndar verið enn þá hærri í íslensku sjókvíaeldi undanfarin tvö ár og töluvert verri en í Noregi.

Greinin sem hér fylgir sýnir að í hnotskurn hvernig afstaðan er breytt í Noregi. Þarna er ekki fulltrúi náttúru- eða dýravelferðarverndarsamtaka að skrifa, heldur stjórnmálafréttaritstjóri Nettavisen. Og hann segir nú sé nóg komið. það verði ekki búið við þetta ástand lengur.

„Í einni viku, 25. febrúar til 2. mars, var helmingur eldislaxa sem var slátrað úr sjókvíunum svo illa á sig kominn að grípa þurfti til sérstakra ráðstafana.“

Og þær voru að annað hvort var fiskinum fargað eða hann malaður í mjöl.

Þetta ástand var ekki undantekning:

„Í átta vikur í röð í febrúar/mars var 35 prósent af eldislaxinum svona illa farinn og sjúkur.“

Það er þyngra en tárum tekur að lesa lýsingarnar og skoða myndirnar í grein Erik Stephansen. Enn verra er að við höfum séð þetta hrikalegra úr sjókvíunum hér við land.