Mjög fróðleg grein eftir Þórólf Matthíasson, Ola Flåten og Anders Skonhoft sem birtist í Fréttablaðinu varpar ljósi á baráttu aðkeyptra fræðimanna gegn fyrirhuguðu auðlindagjaldi sem norsk stjórnvöld hafa boðað á sjókvíeldi við Noreg. Þar, rétt einsog hér, vill þessi ágenga og mengandi stóriðja fá allt fyrir ekki neitt.

Í því samhengi er rétt að nefna nýleg skrif framkvæmdastjóra SFS þar sem því er haldið fram að smávægileg hækkun á hlægilega lágum gjöldum sem lögð eru á sjókvíaeldisfyrirtækin hér á landi sé ósanngjörn.

Meðal raka sem framkvæmdastjórinn nefnir er að þetta sé svo ný atvinnugrein hér á landi. Sjókvíaeldi hefur hins vegar verið stundað við Ísland í tæp fjörtíu ár. Fyrirtækin sem hófu rekstur hér á níunda áratug síðustu aldar fóru á hausinn í byrjun þess tíunda með milljarða tjóni fyrir banka og lánastofnanir í eigu almennings. Við upphaf þessarar aldar varð Samherji svo frá að hverfa á Austfjörðum eftir að marglyttur og önnur náttúruöfl þurrkuðu út allt líf í sjókvíum félagsins. Samherji fór með sitt eldi upp á land og hyggur á stóraukin umsvif þar.

Núverandi bylgja hófst með stofnun Fjarðalax árið 2007. Það fyrirtæki rann svo inn í fyrirtækið Arnarlax, sem var stofnað 2009.

Aldrei frá því þessi elstu sjókvíaeldisfyrirtæki voru stofnuð hafa þau greitt hér tekjuskatt. Bókhaldslegt tap hefur verið á hverju einasta ári, enda eigendur jafnan verið yfir 90 prósent erlend félög sem veita dótturfélögunum lán og selja þeim búnað, fóður og ráðgjöf. Fyrir allt þetta streymir gjaldeyrir út úr landi.

Eignarhlutir í íslenskum sjókvíaeldisfyrirtækjum hafa hins vegar gengið kaupum og sölu fyrir marga, marga milljarða. Nú síðast þegar Mowi, stærsta sjókvíaeldisfyrirtæki heims, keypti ríflega helmings hlut í Arctic Fish fyrir um 27 milljarða króna.

Söluvaran er fyrst og síðast framleiðsluleyfi á eldislaxi og aðengi að takmörkuðum auðlindum þjóðarinnar í fjörðum landins. Þjóðin hefur hins vegar ekki fengið eina krónu af þessum viðskiptum. Þau hafa gert örfáa einstkalinga moldríka.

Og svo kemur málpípa þessa iðnaðar fram og segir að hann geti ekki greitt smávægilega hækkun á svo fáránlega lágum gjöldum sem á hann eru lögð að þau standa ekki undir þeirri opinberu þjónustu sem hann kostar skattborgara.

Greinin sem birtist í Fréttablaðinu:

Hagfræðingarnir Ragnar Árnason og Trond Björndal skrifuðu saman grein í norska dagblaðið Klassekampen (Stéttarbaráttuna) þann 16. nóvember sl. undir titlinum „Verdiskaping i oppdrettsnæringa“ (Verðmætasköpun í fiskeldi). Tilefni greinarskrifa þeirra félaga var að í lok september í ár kynnti norska ríkisstjórnin áform um að leggja á sérstakt auðlindagjald (grunnrenteskatt) á norskt fiskeldi og fleiri norskar atvinnugreinar sem byggja á nýtingu náttúruauðlinda. Markmið greinar þeirra félaga er að útskýra fyrir almenningi í Noregi og lesendum blaðsins hvers vegna þeir telja að þetta sé ekki góð hugmynd. Því miður er ekki allt sem sýnist í röksemdafærslu þeirra.

Árið 2018 setti ríkisstjórn Ernu Solberg á legg nefnd sérfræðinga og fulltrúa hagsmunaaðila sem skyldi kanna með hvað hætti skynsamlegast væri að sjá til þess að almenningur nyti bróðurparts­ins af auðlindaarði í sjókvíaeldi. Í nefndinni sátu m.a. virtir hagfræðingar á sviði fiskihagfræði og fjármála hins opinbera. Niðurstöður nefndarinnar voru kynntar í skýrslunni Skattlegging av havbruksvirksomhet, NOU 2019:18. Meirihluti nefndarinnar lagði til viðbótarskatt á hagnað í sjókvíaeldi. Með þeim hætti fengi almenningur hluta af auðlindaarðinum með sama hætti og í olíuvinnslu og raforkuframleiðslu. Jafnframt hefði slík skattlagning ekki áhrif á val á fjárfestingarverkefnum, því eins og nefndin orðaði það: Verkefni sem eru arðbær án auðlindagjaldsins (grunnrenteskatt) væru það einnig þrátt fyrir álagningu gjaldsins.

Viðbrögð laxeldisiðnaðarins létu ekki á sér standa. Árið 2020 fólu samtök laxeldisfyrirtækja í Noregi, Sjömat Norge; þeim Ragnari og Trond, gegn greiðslu, að andmæla niðurstöðum auðlindaarðgjaldanefndarinnar. Rök þau sem þeir félagar hafa uppi í grein sinni í Klassekampen eru þau sömu og fram koma í skýrslu sem þeir sömdu fyrir Sjömat Norge. Rökin sem þeir félagar bera á borð fyrir lesendur Klassekampen eru rök hagsmunavarða laxeldisfyrirtækjanna, ekki rök óháðra vísindamanna. Þegar þeir félagar finna auðlindagjaldi í laxeldi allt til foráttu er það niðurstaða sem fellur vel að hagsmunum verktakans. Taki vísindamaður að sér hagsmunagæslu gegn greiðslu er almennt gengið út frá að frá hagsmunatengslunum sé greint þegar vísindamaðurinn tjáir sig um viðkomandi málefni. Þeir félagar brjóta þá reglu. Það er ókurteisi gagnvart lesendum Klassekampen að ekki sé meira sagt.

Samkvæmt skilgreiningu er auðlindaarður tengdur nýtingu náttúruauðlinda á borð við fiskistofna, fallorku, gufuorku og námur. Auðlindaarðurinn eru þær tekjur sem eftir standa þegar greitt hefur verið fyrir alla framleiðsluþætti sem koma við sögu í framleiðslunni í samræmi við það sem best gerist væru þættirnir notaðir í öðrum atvinnurekstri. Ótal kannanir sýna að auðlindaarður í norsku laxeldi er umtalsverður og á pari við auðlindaarð í raforkugeiranum í Noregi. Flåten og Tham (2019) og Greaker og Lindhold (2019) telja auðlindaarðinn 25–27 milljarða NOK árið 2016 eða 430 til 460 milljarðar ISK á verðlagi ársins 2022.

Í skýrslu sinni fyrir Sjömat Norge benda skýrsluhöfundar réttilega á að ótal framleiðsluþættir eru nýttir við framleiðslu á eldislaxi. Auk vinnuafls og fjármuna (kvíar, fóðurbátar, hafnaraðstaða, sláturaðstaða) er staðsetning einn framleiðsluþátta. Í Noregi felur staðsetning í sér aðgang að afar heppilegum aðstæðum til fiskeldis í þröngum og djúpum fjörðum þar sem hitastig er heppilegt til eldis stóran hluta ársins. Þessi hafsvæði eru yfirlýst eign norsku þjóðarinnar. Markmið ríkisstjórnar Noregs er að auðlindaarðsgjaldið (40% af umframarði) komi í stað leigugjalds fyrir afnot af þessum hafsins gæðum. Eining er meðal norskra hagfræðinga og norskra hagfræðistofnana (t.d. Hagstofunnar norsku) um umfang auðlindaarðsins í fiskeldinu. En í skýrslu sinni til Norsk sjömat fallast höfundarnir ekki á þær niðurstöður. Telja að öllum hinum hagfræðingunum hafi yfirsést mikilvægir framleiðsluþættir á borð við framlag tæknifrumkvöðla, kynbótastarf, fóðurþróun, markaðsstarf. Þeir virðast telja að allur sá umframarður sem aðrir meta sé í raun tekjur sem ættu að reiknast eigendum þessara framleiðsluþátta. Það vekur reyndar athygli að þeir skýrsluhöfundar nefna ekki neikvæð áhrif eldisins á borð við erfðamengun gagnvart villtum laxi, bætt lífsskilyrði fyrir sníkjudýr á borð við laxalús og saur- og lyfjamengun í nágrenni kvíanna. Reikna ætti fyrirtækjum og almennum borgurum sem verða fyrir skakkaföllum vegna þessara neikvæðu umhverfisáhrifa bætur. Þá ber einnig að hafa í huga að það hafsvæði sem nýtt er undir laxeldi verður ekki notað til frístunda­athafna eða til atvinnureksturs (siglinga, veiða eða ferðamennsku).

Eldislax stendur yfirleitt þétt í kvíum. Aukinn þéttleiki bæði í kvíum og í fjölda kvía á ákveðnu hafsvæði skapar neikvæð rekstrarleg áhrif. Ekki bara fyrir aðila sem standa utan laxeldisins heldur einnig gagnvart öllum öðrum sem stunda laxeldi, jafnvel á fjarlægum eldisstöðum. Mengun sjávar í nágrenni kvíanna eykur hættu á sjúkdómum í laxinum. Þess vegna hefur greinin fallist á að settar séu reglur um hversu þétt eldisstöðvar geta verið. Sömuleiðis hefur greinin orðið að fallast á að tillit sé tekið til hagsmuna farskipa og fiskiskipa auk annarra. Nú, þegar staðan er sú að norskir laxeldisaðilar hafa fákeppnisstöðu á heimsmarkaði hefur greinin sem heild hagsmuni af að halda aftur af fjölgun eldisstöðva af markaðsástæðum. Skýrsluhöfundarnir láta að því liggja að takmarkanir á fjölda leyfa til að setja upp kvíar sé uppfinning skriffinna sem vilja flækjast fyrir. Eins og þegar hefur verið rakið hefur greinin sjálf mikla hagsmuni af að fjöldi kvía sé takmarkaður. Ef engar takmarkanir væru á uppsetningu nýrra kvía myndi ríkja algjör ringulreið sem á endanum kynni að leiða til kollsteypu og eyðileggingar. Þetta hefur gerst annars staðar í heiminum, t.d. í Síle. Vandinn við leyfisveitingarnar í Noregi er að framleiðsluheimildirnar eru afhentar ókeypis eða nánast ókeypis. Þess utan hafa leyfin verið veitt án tímatakmarkana. Löggjafinn og framkvæmdavaldið hafa reynt að lagfæra þetta nokkur síðustu árin með því að selja ný leyfi á uppboðsmarkaði. Ofurhagnaðurinn í greininn er fyrst og fremst tilkominn vegna þess að laxeldisfyrirtækin fá aðgang að hafi, fjörðum og strönd án þess að eðlileg greiðsla komi fyrir. Laxeldisfyrirtækin eiga ekki hafið, firðina eða strandsvæðin. Þeir framleiðsluþættir eru eign norsku þjóðarinnar.

Leyfiskerfið í laxeldinu veitir þeim framleiðendum sem þegar eru inni í greininni skjól og takmarkar framleiðslu og útflutning á eldislaxi frá Noregi. Noregur framleiðir meira en helming þess sem framleitt er af Atlantshafslaxi í heiminum og útflutningur landsins hefur áhrif á heimsmarkaðsverðið. Sú hækkun markaðsverðs sem er afleiðing leyfiskerfisins eykur auðlindaarðinn í greininni. Rannsóknir sýna að þessi þáttur einn skýrir um 40% af umfangi auðlindarentunnar í norsku fiskeldi.

Skýrsluhöfundarnir skýra ofurhagnað í norsku laxeldi með öðrum hætti en aðrir hagfræðingar. Þeir telja að þessi ofurhagnaður séu tekjur skapaðar af framlagi sérfræðinga á borð við líffræðinga, markaðsfræðinga, lífeðlisfræðinga, verkfræðinga og annarra rannsakenda og frumkvöðla, tekjur sem eru umfram það sem þessir aðilar gætu skapað í annarri starfsemi en fiskeldi. Ef fylgja á röksemd þeirra skýrsluhöfunda liggur fyrir að þessar tekjur hafa runnið til eigenda fiskeldisfyrirtækjanna en ekki starfsmannanna sjálfra. Hér er því komið dæmi um það sem Karl Marx nefndi arðrán í sínum skrifum. Það er með öllu óeðlilegt að umframarður af starfi opinberra rannsóknarstofnana eða starfi sjálfstæðra rannsóknaraðila sem gjarnan njóta opinberra styrkja renni til eldisfyrirtækjanna. Ríkisstjórn Noregs vill að hluti af umframhagnaði laxeldisins renni til almennings. Einstök laxeldisfyrirtæki og hagsmunasamtök laxeldisfyrirtækjanna berjast gegn því með aðkeyptri aðstoð almannatengla, lögfræðinga, blaðamanna og einstaka vísindamanna. Þessar aðferðir dugðu til að koma í veg fyrir að auðlindagjald yrði að veruleika strax í kjölfar skýrslunnar NOU2019:18. Vonandi gengur þeim ekki eins vel í þetta skipti. Norskur almenningur á það skilið.

Höfundar hafa hvorki fjárhagsleg né önnur tengsl við laxeldisfyrirtæki eða samtök þeirra. Greinin er nokkuð ítarleg útgáfa greinar sem birtist í Klassekampen 1. desember 2022.