Við erum ekki búin að sjá fyrir endann á þessum hryðjuverkum gegn íslensku lífríki.

Allt er að rætast sem varað var við en sjókvíaeldisfyrirtækin sögðu að gæti ekki gerst.

Í umfjöllun RÚV kemur fram:

„Við slátrun Arctic Sea Farm á laxi, frá 9. ágúst til þess 20., úr sjókví í Kvígindisdal í Patreksfriði komu í ljós tvö göt á kvínni. Matvælastofnun rannsakar hvernig götin komu. …

Hafrannsóknastofnun rannsakar meinta eldislaxa sem fundist hafa í laxveiðiám. Og slíkir laxar hafa verið sendir þangað á skömmum tíma úr mörgum ám. Þær eru Laxá í Dölum, Hvolsá, Ósá í Patreksfirði, við Örlygshöfn, í Mjólká, Laugardalsá við Ísafjarðardjúp, og við Húnaflóla; Miðfjarðará, Víðidalsá, Hópið, Vatnsdalsá og Svartá.

Blanda bættist við í gær. Það vildi þannig til að Guðmundur Haukur Jakobsson fór að laxastiganum í Blöndu til að hreinsa teljara. Það þarf að gera þegar áin er á yfirfalli. Þegar hann lokaði teljarahólfinu var í honum lúsugur lax. Hann háfaði tvo þeirra upp, drap þá og þótti þeir bera öll merki eldislax. Hann sendir þá suður til Hafrannsóknastofnunar á morgun. Þangað hafa sextán laxar úr hinum ánum þegar verið sendir. Erfðaefni úr löxunum verður greint. Þá verður hægt að segja með vissu úr hvaða sjókvíaeldi laxinn er.

Sé eitthvað af löxunum sem náðust í ánum í Húnaflóa úr Patreksfirði væri það ótrúlega löng leið fyrir laxinn að synda á aðeins örfáum vikum. Önnur skýring gæti verið sú að þetta séu laxar sem sluppu úr nótarpoka í Arnarfirði 2021. Þeir laxar voru mun minni en þeir sem sluppu núna í ágúst en margfalt fleiri. Nokkuð af þeim veiddist í fyrra í Mjólká og töldu vísindamenn líklegt að þeirra yrði líka vart í sumar.“