Að mati Trygve Poppe, sem er norskur sérfræðingur í fiskisjúkdómum, hafa sjókvíaeldisfyrirtækin á Íslandi sýnt af sér hegðun í aðdraganda lúsafaraldursins í Tálknafirði sem er nánast glæpsamleg.

„Þetta er gróft dýraníð og ég myndi næstum segja að þetta væri glæpsamlegt. Þetta er svo gróf vanræksla.”

Í umfjöllun Heimildarinnar segir m.a.:

„96 lýs á hverjum laxi. Guð minn góður! Þetta eru dramatískar tölur. Ég hef aldrei heyrt svona tölur áður,“ segir norski dýralæknirinn Trygve Poppe þegar tölurnar frá Matvælastofnun um magn laxalúsarinnar hjá Arctic Fish í Tálknafirði eru bornar undir hann. Í byrjun október voru rúmlega 96 lýs af ólíkri stærð að meðaltali á hverjum eldislaxi hjá Arctic Fish í sex kvíum. Um var að ræða laxalýs á þremur ólíkum vaxtarskeiðum: á lirfustigi, miðstigi og svo fullorðnar lýs.

Trygve, sem er prófessor emeritus og sérfræðingur í fiskisjúkdómum við dýralæknaháskólann í Noregi, segir aðspurður að þegar laxalús kemur upp í sjókvíum þá taki það hana yfirleitt mjög skamman tíma að fjölga sér.

Hann segir hins vegar að kuldi geti haft þau áhrif á lýsnar að það hægist á vexti þeirra frá lúsalirfu upp í fullorðna lús: „Þetta eru laxalýs á ólíkum lífsstigum og þær eru taldar í heild sinni. Það sem gerist er að þegar laxalýs eru á lirfustiginu þá getur það tekið þær svolítinn tíma að vaxa þannig að þær verði fullvaxta og skiptir hitastig sjávar meðal annars máli þar,“ segir Trygve við Heimildina.

Dýralæknirinn furðar sig á því að laxeldisfyrirtækin hafi ekki verið viðbúin fyrir það að vandamál vegna laxalúsar gætu komið upp þar sem norsku sjókvíaeldisfyrirtækin sem eiga íslensku félögin séu reynslunni ríkari frá Noregi þar sem laxalús hefur valdið skaða í gegnum tíðina. Blaðamaður bendir Trygve á að engin lúsaviðmið séu í gildi á Íslandi, öfugt við í Noregi þar sem laxeldisfyrirtækin þurfa að byrja með aðgerðir til að bregðast við lúsinni ef það finnast 0,5 lýs á hverjum laxi. „Norsku eigendurnir eiga að nota sína reynslu frá Noregi, þar sem laxeldi hefur verið stundað í næstum 50 ár, með sér til Íslands. Ég skil ekki af hverju fyrirtækin brugðust ekki við fyrr eftir að lúsin kom upp. Það er ótrúlegt að fyrirtækin hafi leyft tölunum um laxalúsina að ná þessum hæðum,“ segir hann en bæði Arctic Fish og Arnarlax eru í meirihlutaeigu norska laxeldisfyrirtækja.

Að mati Trygve þá hafa laxeldisfyrirtækin á Íslandi sýnt af sér hegðun í aðdraganda lúsafaraldursins í Tálknafirði sem er nánast glæpsamleg. „Þetta er gróft dýraníð og ég myndi næstum segja að þetta væri glæpsamlegt. Þetta er svo gróf vanræksla.“