Í fyrra drápust um þrjár milljónir eldislaxa í sjókvíum við Ísland. Það er 50-föld tala alls íslenska villta laxastofnsins.

Forsvarsmenn sjókvíaeldis hafa staðfest að stórfelldur dauði eldisdýra er óhjákvæmilegur hluti af þessum iðnaði.

Þetta er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu. Ekki kaupa eldislax úr sjókvíum. Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur m.a. fram:

Afföllin voru um 19 prósent á síðasta ári, sem er nærri 27 prósentum meira en gerist í norsku sjókvíaeldi, „sem þykir algerlega óásættanlegt þar í landi,“ eins og Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins, kemst að orði en þau samtök berjast gegn erfðablöndun eldisfisks og villta laxastofnsins á Íslandi.

Hann segir velferðarvanda í sjókvíaeldi á laxi vera gríðarlegan hér við land. „Tökum sem dæmi ástandið hjá Arctic Fish í Dýrafirði fyrir vestan. Það fyrirtæki meðhöndlaði eldisdýrin sín með þeim hætti að um einn af hverjum þremur eldislöxum í sjókvíum í firðinum drapst í janúar og febrúar í fyrra af völdum vetrarsára og líffærabilunar,“ segir Jón.

Og nú í desember hafi lúsasmit í sjókvíum Arctic Fish verið svo hrikalegt að viðlíka tölur hafi aldrei áður sést hér við land. „Þær voru margfalt yfir þeim mörkum sem heimilt er samkvæmt norskum reglum,“ bendir Jón jafnframt á.