Við skiljum ekki hvernig innviðaráðherra ætlar að horfa framan í almenning eftir afgreiðslu þessa máls.

Eftirfarandi grein eftir Magnús Guðmundsson, Benediktu Svavarsdóttur og Sigfinn Mikaelsson sem birtist í Vísi fer yfir þá fjarstæðukenndu stjórnsýslu sem viðgengst í þessum málaflokki.

Í greininni fara þau yfir nokkur atriði sem Sigurður Ingi Jóhannesson, Inviðaráðherra ætti að hafa í huga:

„Seyðisfjörður er eini fjörður landsins með fjarskiptastreng til Evrópu. Farice-1 strengurinn er ríkiseign, sem á að njóta fyllsta öryggis skv. öryggisstefnu landsins. Strandsvæðaskipulagið, sem innviðaráðherra var að samþykkja, tryggir ekki öryggi hans því það brýtur fjarskiptalög. …

Seyðisfjörður er önnur af farþega-millilandagáttum landsins, og eina höfnin með reglubundnar áætlunarsiglingar bíla- og farþegaferju milli Íslands og Evrópu til tæpra 50 ára. Auk þess fer mikill út- og innflutningur um höfnina. Seyðisfjörður er fjórða stærsta skemmtiferðaskipahöfn landsins.

Seyðisfjarðarhöfn er grunnnetshöfn, sem nýtur siglingaverndar. Siglingaleiðin um ytri höfnina verður þrengd úr hófi fram, ef farið er að óskum Fiskeldis Austurlands um sjókvíaeldi. Ef þetta er gert er lítið gagn í uppbyggingu góðrar hafnar með tveim bílaferjulægjum og aðstöðu fyrir stór skemmtiferðaskip, sem unnið er við að landtengja. Höfnin skapar miklar tekjur ekki bara fyrir Múlaþing heldur landið allt. …

Að mati Landhelgisgæslunnar er rík ástæða til að stækka öryggissvæði siglingaleiða fjórfalt, úr 50 m í a.m.k. 200 m, til þess að gefa sjófarendum nauðsynlegan viðbragðstíma, t.d. til stefnubreytingar eða til að koma út akkeri.

Landhelgisgæslan hvetur því svæðisráð og Skipulagsstofnun til þess að leggja heildstætt mat á siglingasvæði í strandsvæðaskipulagi svæðisins, ekki aðeins út frá mestu umferð skipa eins og hún er í dag, heldur út frá almannaöryggi og hvernig það verður best tryggt.

Samgöngustofa og Vegagerðin komu með síðbúnar athugasemdir við skipulagið vegna vita og siglingaleiða. Athugasemdir þessara stofnana voru ekki virtar. …

Í minnisblaði frá Veðurstofu, sem gert var fyrir Fiskeldi Austfjarða og er í fullu gildi, kemur fram að kvíastæði í Selstaðavík er á C hættusvæði ofanflóða. Við þurfum ekki hamfarir í slysasleppingum af mannavöldum. …

Strandsvæðaskipulagið þurrkar út grænt svæði í Skálanesbót fyrir sjókvíaeldi. Þar er uppeldissvæði æðarfugls og fiska, fræðasetrið í Skálanesi með átta manns í vinnu og Austdalur, sem er á náttúruminjaskrá og nýtur hverfisverndar.

Sjókvíaeldið var valið á grundvelli þess að rangt burðarþolsmat lá fyrir í Seyðisfirði og áform um sjókvíaeldi langt komin í leyfisveitingaferli.

Þetta strandsvæðaskipulag stenst enga skoðun. Þarna viðurkennir svæðisráð það sem við höfum haldið fram. Skipulagið er eingöngu unnið fyrir sjókvíaeldi og Sigurður Ingi samþykkir það á þeim forsendum. …

Siðfræðingur talaði um svörtu skýrslu Ríkisendurskoðanda um sjókvíaeldi, sem skýrslu á borð við hrunskýrsluna. Guð blessi Ísland. Í skýrslunni segir á bls. 11:

“Verðmætum í formi eldissvæða og lífmassa hefur verið úthlutað til lengri tíma án endurgjalds og dæmi eru um að uppbygging sjókvíaeldis skarist á við aðra mikilvæga nýtingu strandsvæða, svo sem siglingaleiðir, helgunarsvæði fjarskipta- og raforkustrengja og við hvíta ljósgeira siglingavita.”

Þarna er ansi fast skotið á skipulagsvinnuna, sem setti innviði landsins til hliðar fyrir sjókvíaeldi. Sigurður Ingi bætti um betur og horfði fram hjá öllum þeim rökum og staðreyndum sem kom í veg fyrir sjókvíaeldi í Seyðisfirði. Spillingin lekur af þessu hálfunna skipulagi.“