Okkur barst í dag fyrirspurn frá Kristni H. Gunnarssyni, ritstjóra BB, sem okkur er ljúft og skylt að svara. Tilefnið eru upplýsingar sem koma fram á heimasíðu Ekki í boði. Fyrirspurnin og svarið við henni fara hér á eftir:

FYRIRSPURN BB
„Óskað er nánari skýringa á því hvað átt er við með skólpi frá sjókvíaeldi í fullyrðingunni: Þar geta neytendur gengið að því að vísu að ef lax er í boði þá kemur hann úr landeldi þar sem skólp frá starfseminni er hreinsað áður en það fer í umhverfið og hvorki fiskur né sníkjudýr sleppa viðstöðulaust í hafið.“

SVAR IWF
„Blessaður Kristinn,

því er auðsvarað. Í skólpi frá sjókvíaeldi er að finna skít og fóðurleifar auk, eftir atvikum, skordýraeitur og lyf vegna aflúsunarmeðferðar. Við þetta bætast svo annars vegar míkróplast sem kemur úr fóðurrörunum (úr plasti) þegar fóðurkögglunum er blásið eftir þeim út í kvíarnar, þessi rör eru yfirleitt frá fimm til tíu km við hvert sjókvíaeldissvæði, og hins vegar þungmálmurinn kopar sem brotnar og losnar úr ásætuvörnum á netapokunum.

Skólpið má líka kalla „klóakrennsli“ eins og var gert á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva. Sjá skjáskot í viðhengi. Sú síða virðist heyra sögunni til.

Í skjáskotinu sérðu að Landssambandið mat „klóakrennslið“ frá hverju tonni af laxi á við það sem kemur frá átta manneskjum á ári. Miðað við þá tölu mun „klóakrennslið“ frá 20.000 tonna sjókvíaeldi í Arnarfirði verða álíka og frá 160.000 manna borg, auk skordýraeitursins, lyfjaleifanna, koparsins og plastsins.

Norska umhverfisstofnun hefur metið að „klóakrennslið“ sé tvöfalt meira, eða frá 16 manns á tonn. Það þýðir að „klóakrennslið“/skólpið frá 20.000 tonna sjókvíaeldi í Arnarfirði verður á við frá 320.000 manns.

Núgildandi áhættumat erfðablöndunar heimilar allt að 64.500 tonna sjókvíaeldi á Vestfjörðum. Það þýðir að „klóakrennslið“ miðað við mat Landssambands fiskeldisstöðva verður ígildi 516.000 manna byggðar, en tvöfalt meira, eða 1.032.000 manns miðað við mat Norsku umhverfisstofnunarinnar.“

Við þetta má bæta að um skólp frá landeldi á laxi gilda sömu reglur og í öðru dýrahaldi í matvælaframleiðslu á landi. Harðbannað er að losa skólp óhreinsað í sjó. Brot á þeim lögum geta varða fangelsisvist.