Skipulagsstofnun tekur Fiskeldi Austfjarða verðskuldað til bæna í umsögn sinni um matsskýrslu fyrirtækisins vegna umsóknar um sjókvíaeldi í Stöðvarfirði.

Í matsskýrslunni heldur sjókvíaeldisfyrirtækið fram þeirri reginfirru að áhrifin af erfðablöndun eldislax við villta stofna verði „óveruleg og afturkræf“. Skipulagsstofnun bendir á vísindarannsóknir staðfesta að svo er alls ekki og segir að sjókvíaeldi með frjóan lax komi ekki til greina í Stöðvarfirði.

Skv. frásögn RÚV:

„Í matsskýrslu Fiskeldis Austfjarða hf. kemur fram að eldið verði í samræmi við áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna. Fyrirliggjandi áhættumat erfðablöndunar gerir ekki ráð fyrir eldi á frjóum laxi í Stöðvarfirði og vegna þeirra takmarkana er aðeins áformað að notast við ófrjóan eldislax.

Í matsskýrslunni kemur jafnframt fram að áhættumatið verður endurskoðað reglulega og komi til þess að endurskoðun heimili eldi á frjóum laxi, þá áskilur Fiskeldi Austfjarða sér rétt til að hefja eldi á frjóum laxi. Af þeim sökum mat Skipulagsstofnun umhverfisáhrif eldis á frjóum eldislaxi í nýju umhverfismati sínu og kemst að þeirri sömu niðurstöðu að ekki sé heimilt að notast við frjóan eldislax.

Skipulagsstofnun telur þá niðurstöðu Fiskeldis Austfjarða í matsskýrslu að áhrif eldis á frjóum laxi á erfðablöndun verði óveruleg og afturkræf óforsvaranlega. Þá sæti það furðu að í matsskýrslu skuli áhrifin metin afturkræf í ljós þess að í matsskýrslunni sé vísað í nýlega norska rannsókn sem leiddi í ljós að breytingar hafa átt sér stað á erfðasamsetningu 115 af 175 laxastofnum sem skoðaðir voru í þeirri rannsókn. Að mati stofnunarinnar er um augljóst vanmat að ræða.“