Stofnanir sem þiggja stærstan hlutan tekna sinna frá ríkinu virðast hver á fætur annarri þjást af mjög óheppilegri meðvirkni með sjókvíaeldisfyrirtækjunum sem starfrækt eru hér við land á vegum norskra stórfyrirtækja. MAST tók til dæmis upp á því í haust að greina ekki frá stórfelldri notkun lúsaeiturs hjá tveimur sjókvíaeldisfyrirtækjum fyrir vestan og breytti þar vinnulagi sínu frá fyrri árum þegar undantekningalaust var sagt sérstaklega frá notkun slíkra efni. Og MATÍS stóð svo fyrir mikilli halelújasamkomu í gær þar sem forstjórinn steig fyrstur í pontu og talaði til fundargesta eins og hann væri á ársfundi Landssambands fiskeldisstöðva.

Jón Kaldal skrifar um undarlegan hagsmunarekstur MATÍS fyrir sjókvíaeldisfyrirtækin í grein sem birtist á Vísi í dag. Í greininni segir Jón m.a.:

“MATÍS stóð fyrir furðulegri samkomu fimmtudaginn 19. desember um áhrif sjókvíaeldis á laxi á strjálbýl strandsvæði í Norður Noregi. Matís þiggur stærstan hluta tekna sinna frá ríkinu og meðal meginmarkmiða stofnunarinnar eru matvælaöryggi og lýðheilsa. Á hvorugt var þó minnst á þessum fundi að frumkvæði stjórnenda MATÍS eða gestafyrirlesarans, Gunnars Davíðsonar, deildarstjóra hjá fylkisstjórn Troms fylkis í Noregi.

Það var vægast sagt sérstakt að hlusta á Gunnar, sem var kynntur til leiks sem sérfræðingur um áhrif sjókvíaeldis, flytja klukkutíma fyrirlestur þar sem var alfarið skautað fram hjá hversu gríðarlega umdeilt laxeldi í sjókvíum er, hvort sem það er í Noregi eða annars staðar þar sem það er stundað.

Gunnar minntist ekki orði á að fosfórs- og köfnunarefnismengun hefur tíu- til fimmtánfaldast í hafinu við Noreg á undanförnum árum með vaxandi eldi. Hann minntist heldur ekki á að árið í ár er það versta frá 2011 í norsku sjókvíaeldi þegar litið er til sleppislysa. Hann nefndi ekki einu orði gríðarlegan velferðarvanda sem sjókvíaeldið glímir við þegar kemur að aðbúnaði eldislaxa í kvíunum.”